Embætti sérstaks saksóknara varði minna fé í aðkeypta fjölmiðlaráðgjöf á tæpum sex árum vegna allra mála embættisins en innanríkisráðuneytið gerði í fyrra vegna Lekamálsins. Þetta kom fram í hádegisfréttum RÚV.
Eins og Kjarninn greindi fyrstur fjölmiðla frá í gær, greiddi innanríkisráðuneytið ráðgjafafyrirtækinu Argus tæpar 2,4 milljónir króna fyrir sértæka fjölmiðlaráðgjöf á síðasta ári vegna Lekamálsins svokallaða.
Samkvæmt frétt RÚV er ekki algengt að ráðuneytin greiði fyrir aðkeypta fjömiðlaráðgjöf, með undantekningum þó. Sóst hefur verið eftir aðkeyptri þjónustu til kynningar á stórum málum, eins og í tilfelli utanríkisráðuneytisins og Icesave, forsætisráðuneytisins og fjármálaráðuneytisins vegna Leiðréttingarinnar og atvinnuvegaráðuneytisins vegna náttúrupassans og kvótafrumvarpsins.
Á síðasta ári, þegar innanríkisráðuneytið greiddi tæpar tvær og hálfa milljón króna fyrir fjölmiðlaráðgjöf, var Hanna Birna Kristjánsdóttir þáverandi ráðherra með tvo aðstoðarmenn og aðgang að meira en 20 lögfræðingum í ráðuneytinu.
Til samanburðar greiddi embætti sérstaks saksóknara 1,7 milljónir króna fyrir aðkeypta fjölmiðlaráðgjöf á tæpum sex árum, frá 2009 til ársloka 2014, að því er fram kemur í áðurnefndri frétt RÚV.