Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, ormaður Framsóknarflokksins, segja báðir að til greina komi að Hanna Birna Kristjánsdóttir taki aftur við ráðherraembætti í ríkisstjórn þeirra síðar á kjörtímabilinu. Hanna Birna sagði af sér embætti innanríkisráðherra í gær. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Aðspurður hvort Hanna Birna verði ráðherra á ný svarar Bjarni: „Það kemur allt til greina í pólitík. Það er eitt sem er alveg öruggt að það kemur allt til greina í þeim efnum“. Sigmundur Davíð tekur í svipaðan streng og segist vel geta séð fyrir sér að Hanna Birna verði ráðherra á ný á kjörtímabilinu. „Það er alls ekkert loku fyrir það skotið að Hanna Birna verði ráðherra aftur. Ég gæti mjög vel séð það gerast,“ segir Sigmundur Davíð í samtali við Morgunblaðið.
„Auðvitað gerðum við öll mistök"
Hanna Birna sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem hún fór yfir ástæður þess að hún sagði af sér. Að öðru leyti hefur hún ekki viljað ræða málið við fjölmiðla. Í Fréttablaðinu í dag er greint frá því að hún hafi yfirgefið innanríkisráðuneytið á áttunda tímanum í gær.
Nokkru áður hafi Friðjón R. Friðjónsson, annar eigandi almannatengslafyrirtækisins KOM, og Óli Björn Kárason, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, komið í ráðuneytið. Þegar Hanna Birna yfirgaf ráðuneytið sagði hún við fjölmiðlamenn sem biðu hennar: „Auðvitað gerðum við öll mistök. En ekki þannig að það sé eitthvað sem ég þurfi að fara yfir. Núna ætla ég bara að sinna fólkinu mínu og er búin að eiga erfiðan dag hér í ráðuneytinu. Takk fyrir að bíða“.