Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra hefur tilkynnt Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, formlega um að hún vilji hætta sem ráðherra og hún sækist ekki lengur eftir því að gegna embætti innanríkisráðherra. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins fengu vitneskju um afsögn hennar síðdegis.
Í yfirlýsingu sem Hanna Birna hefur sent frá sér, segir að hún hafi frá upphafi Lekamálsins reynt að vanda til verka og alltaf brugðist við með þeim hætti sem hún hafi talið satt og rétt. Hún hafi ítrekað sagt frá því sem hún hafi getað sagt um málið, og reynt að skýra það með eins sönnum hætti og henni hafi verið unnt. Hún hafi látið framkvæma sérstaka skoðun í ráðuneytinu, hafi orðið við öllum beiðnum lögreglu um gögn og upplýsingar en um leið reynt að vernda mannréttindi og trúnað við aðra en þá sem rannsóknin beindist að. Þá hafi hún svarað ítrekuðum spurningum umboðsmanns Alþingis og lagt ríka áherslu á að vinna skýrari verklagsreglur og öryggisferla til að bregðst við slíkum málum og kærum. Hún hafi vikið aðstoðarmanni sínum frá störfum tímabundið og síðar sagt sig frá verkum dómsmálaráðherra. Þá hafi hún um leið og hún fékk fyrst staðfestar upplýsingar um hvernig í málinu lá, rekið aðstoðarmann sinn tafarlaust. Hún hafi ítrekað tjáð sig um að hún hafi ekki blandað sér með óeðlilegum hætti í rannsókn Lekamálsins og það hafi Stefán Eiríksson, fyrrverandi lögreglustjóri, ríkissaksóknari, rannsakendur og loks héraðsdómur staðfest með niðurstöðum sínum.
Þá segir í yfirlýsingunni: „Undanfarna daga hef ég hins vegar skynjað að ekkert af þessu skiptir raunverulega máli. Tortryggni og vantraust vegna málsins eru enn til staðar og ákveðnir aðilar og öfl geta og munu áfram halda uppi efasemdum og ásökunum vegna þess. Það er því miður búið að draga of marga inn í þessa umræðu ítrekað og með ósannindum, þar með talið nú síðast ráðuneytisstjóra innanríkisráðuneytisins, núverandi lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu og aðra embættismenn. Þau, ekki frekar en ég, höfðu vitneskju um brotið. Nú er mál að linni.“
Gísli Freyr Valdórsson, fyrrverandi aðstoðarmaður Hönnu Birnu, var dæmdur í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur á dögunum, fyrir að leka persónuupplýsingum um hælisleitanda úr innanríkisráðuneytinu til fjölmiðla í nóvember á síðasta ári. Hann hefur ítrekað þverneitað að Hanna Birna hafi verið viðriðin málið.
Hægt er að lesa yfirlýsingu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í heild sinni hér.