„Örugglega hefði ég átt að segja af mér,“ segir Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrverandi innanríkisráðherra, um viðbrögð sín í kjölfar rannsóknarinnar á lekamálinu. Hanna Birna verður í viðtali í Ísland í dag á Stöð 2 í kvöld. Hún snýr jafnframt aftur á Alþingi í dag, en þingfundur hefst þar klukkan þrjú.
Í frétt Vísis af viðtalinu segir að Hanna Birna viðurkenni í því ýmis mistök sem hún vildi að hún gæti tekið til baka. Þá muni hún ræða um það hvern hún grunaði og hvað hún vissi um lekamálið í kvöld. Ef hún ætli sér að vera áfram í stjórnmálum þurfi hún að vinna sér inn traust þjóðarinnar á ný.
„Síðustu fjóra mánuði hef ég ekki veriđ tilbúin að ræða við fjölmiðla því ég vissi að ég hefði einfaldlega brotnað og það vildi ég alls ekki enda mitt starf ekki að láta vorkenna mér heldur að fylla aðra bjartsýni og von. Í dag er ég á betri stað og er tilbúin að tala og útskýra," segir hún í viðtalinu.
Hanna Birna sagði af sér sem innanríkisráðherra þann 21. nóvember síðastliðinn. Hún hefur síðan þá verið í fríi frá þingstörfum.