Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrum innanríkisráðherra, ætlar ekki að mæta fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis til að ræða um lekamálið. Í bréfi sem Hanna Birna sendi formanni nefndarinnar í dag kemur fram að hún setjist á þing eftir miðjan apríl. Þetta kemur fram á vef RÚV.
Ögmundur Jónasson, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, sendi ítrekun til Hönnu Birnu um boð á að mæta á fund nefndarinnar. Bréf með ítrekuninni var birt á vef Alþingis í síðustu viku.
Hann hafði áður, fyrir hönd nefndarinnar, ritað Hönnu Birnu bréf, þann 22. janúar síðastliðinn í tengslum við lekamálið og henni boðið að mæta á fund nefndarinnar til að gera grein fyrir sinni sýn á málið og svara spurningum nefndarmanna um framgöngu sína í málinu. Þá var óskað eftir því að Hanna Birna myndi svara því skriflega hvort hún hyggðist verða við óskum um að mæta á fund nefndarinnar.
Slíkt svar barst hins vegar ekki og því óskaði nefndin eftir að svar myndi frá henni fyrir næsta fund, sem er áætlaður á morgun, þann 17. mars.
Fréttastofa RÚV hefur svarbréf Hönnu Birnu undir höndum. Þar kemur fram að hún vísi til þeirra upplýsinga og gagna sem þegar liggi fyrir í lekamálinu. Rannsókn og saksókn málsins hafi lokið með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur yfir fyrrum aðstoðarmanni hennar í nóvember síðastliðinn. „Líkt og ítrekað hefur komið fram var ég ekki upplýst um þá aðkomu hans fyrr en nokkrum dögum áður. Í það ár sem málið var til umræðu reyndi ég alltaf að svara spurningum um það í samræmi við þá vitneskju sem ég hafði á hverjum tíma. Það á jafnt við um svör mín við fyrirspurnum þingmanna í þingsal og til nefndarmanna stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þegar ég mætti á fund nefndarinnar,“ segir Hanna Birna í bréfinu samkvæmt frétt RÚV.
Þá segir Hanna Birna að umboðsmaður Alþingis hafi lokið sinni athugun á málinu með áliti og þar sem hún gegni ekki lengur embætti innanríkisráðherra, hafi áður svarað umboðsmanni Alþingis í fjórum formlegum bréfum og sé sem stendur í leyfi frá þingstörfum „ þá vísa ég til ofangreinds og óska nefndinni velfarnaðar í sínum störfum en óska jafnframt ekki eftir að koma frekari upplýsingum að vegna málsins.“