Hanna Birna Kristjánsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi innanríkisráðherra, hefur boðað endurkomu sína á Alþingi í dag.
Hún hefur verið í leyfi frá þingstörfum frá því í nóvember, eða eftir að hún hrökklaðist úr ráðherrastóli eftir að aðstoðarmaður hennar, Gísli Freyr Valdórsson, hlaut skilorðsbundin fangelsisdóm í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir að leka trúnaðarupplýsingum um hælisleitanda úr innanríkisráðuneytinu til fjölmiðla.
Í áliti umboðsmanns Alþingis kemur fram að Hanna Birna og hennar fólk hafi haft mikil og ítrekuð afskipti af rannsókn lögreglu á lekanum úr ráðuneytinu hennar, og að hún hafi farið langt út fyrir valdsvið sitt.
Í kjölfarið bauð stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis Hönnu Birnu að koma á fund nefndarinnar til að ræða álit umboðsmanns sem og ummæli hennar í þinginu í tengslum við lekamálið, sem mörgum þótti ekki standast skoðun. Hanna Birna afþakkaði boðið.
Rúin trausti og í nánast vonlausri pólitískri stöðu hefur hún nú ákveðið að snúa aftur á þing, og sitja þar út kjörtímabilið í umboði kjósenda.
Kjarninn spyr: og hvað nú?