Hanna Birna Kristjánsdóttir reyndi að fá ráðherraembætti á nýjan leik þegar hún snéri aftur til þingstarfa úr fríi í vor, en án árangurs. Hún kannaði jafnframt hjá Gunnari Braga Sveinssyni utanríkisráðherra hvort hún ætti kost á góðri stöðu í öðru landi, en líka án árangurs. Formennska í utanríkismálanefnd, sem Hanna Birna fékk í september, hafi verið eins konar tímbundin dúsa handa henni á meðan að hún tekur ákvarðanir um hver næstu skref hennar verða. Þetta er haft eftir viðmælendum blaðamanns Morgunblaðsins í fréttaskýringu um stöðu Sjálfstæðisflokksins í aðdraganda landsfundar, sem birtist í blaðinu í morgun. Á þeim fundi mun Hanna Birna láta af embætti varaformanns Sjálfstæðisflokksins.
Í blaðinu segir að viðmælendum Morgunblaðsins hafi verið tíðrætt um stöðu Hönnu Birnu, sem sagði af sér embætti innanrikisráðherra vegna lekamálsins í lok síðasta árs. Í skýringunni, sem Agnes Bragadóttir skrifar, segir: "Flestir virðast þeirrar skoðunar að hennar pólitíska lífi sé að ljúka og staða hennar í flokknum og þingflokknum sögð mjög veik. Því er spáð að Hanna Birna noti næsta ár til þess að gera það upp við sig hvort hún hefur áhuga á að taka þátt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir næstu alþingiskosningar".
Í skýringunni er rætt við Hönnu Birnu sem segir það ekki koma sér á óvart að sjálfstæðismenn séu að velta pólitískri framtíð hennar fyrir sér. "Ég hef ítrekað deilt því með mínu fólki í flokknum að reynsla liðinna ára hafi vakið hjá mér og mínum spurningar um hvort þetta sé minn framtíðarstaður. Það breytir þó engu um það að stjórnmálin hafa alltaf verið mikil ástríða hjá mér og mig langar enn fátt meira en að berjast fyrir hugsjónum frelsis og tækifæra. Það geri ég nú á hverjum degi á Alþingi en hef enga ákvörðun tekið um það hvort ég muni gera það til fimmtugs, sextugs eða jafnvel sjötugs. Sú ákvörðun kemur síðar".
Segja að umfjöllun um Illuga jaðri við einelti
Í fréttaskýringunni er einnig sagt að "sú heiftúðlega umræða" sem átt hafi sér stað um Illuga Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, að undanförnu hafi skaðað hans pólitisku stöðu en um leið bendi viðmælendur Morgunblaðsins, sem meðal annars eru sagðir þingmenn flokksins, á að "umfjöllun ákveðinna fjölmiðla um stöðu hans og fjármál jaðri við einelti". Vert er að taka fram að Illugi starfaði sem aðstoðarmaður Davíðs Oddssonar, ritstjóra Morgunblaðsins, árum saman þegar sá síðarnefndi var forsætisráðherra.
Illugi hefir legið undir ámæli vegna tengsla sinn við Hauk Harðarson, stjórnarformann fyrirtækisins Orku Energy. Haukur réð Illuga sem ráðgjafa fyrirtækis síns á meðan að Illugi var í launalausu leyfi frá þingstörfum vegna rannsóknar á peningamarkaðssjóði Glitnis, Sjóði 9, þar sem Illugi sat í stjórn fyrir bankahrunið. Haukur keypti síðan íbúð Illuga af honum í fyrrasumar og leigði honum hana aftur. Illugi var þegar orðinn ráðherra þegar hann seldi íbúðina, en það gerði hann eftir að „nokkur fjárhagsleg áföll“ höfðu dunið á honum. Tengsl Illuga við Hauk hafa þótt tortryggileg vegna þess Haukur fór með Illuga í opinbera heimsókn til Kína í mars 2015, en Orka Energy stundar umfangsmikla jarðvarmastarfsemi þar í landi.
Í Morgunblaðinu er haft eftir ónafngreindum þingmanni Sjálfstæðisflokksins að árangur Illuga í menntamálum sé mjög vanmetinn. "Hann hefur náð fram breytingum sem menn hafa verið að berjast fyrir í yfir tuttugu ár. Þar á ég við styttingu framhaldsskólans, sem hefur mikla þjóðhagslega þýðingu. Þjóðhagsleg hagkvæmni þess að krakkarnir skuli koma ári fyrr út á vinnumarkaðinn, hún jafngildir líklega 13 til 14 milljarða auknum tekjum í landsframleiðslu. Þessi árangur mætti vera meira til umræðu, að ég tali nú ekki um frábæra herferð til þess að auka lestrar- og stærðfræðikunnáttu grunnskólabarna".