Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, ætlar að þiggja annað sætið á lista flokksins í Norðvesturkjördæmi í komandi kosningum. Hann hafði áður sagt að hann myndi ekki vera á lista ef hann tapaði í oddvitaslag gegn Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur, varaformanni flokksins. Þórdís sigraði í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu með miklum yfirburðum um síðustu helgi og fékk tæplega 60 prósent atkvæða í fyrsta sætið á lista.
Haraldur segir í samtali við Skessuhorn í dag að hann hafi á síðustu dögum meðtekið gríðarlegan fjölda áskorana um að þiggja annað sætið á listanum. „Þar eiga í hlut bæði dyggir stuðningsmenn mínir í gegnum tíðina og einnig óflokksbundið fólk sem annt er um stöðu landsbyggðarinnar. Ég get því ekki litið framhjá þeirri staðreynd að þrátt fyrir allt virðist ennþá vera eftirspurn eftir störfum mínum á þingi. Ég get því upplýst að ég lýsi mig tilbúinn í framboðsslaginn.“
Í aðdraganda prófkjörsins, sem fór fram síðustu helgi, sagði Haraldur í viðtali við Bæjarins besta að hann hygðist ekki taka annað sæti á lista, færi það svo að hann tapaði í baráttunni um oddvitasætið.
Þessir úrslitakostir féllu í grýttan jarðveg hjá samflokkskonum Haraldar, þeim var líkt við hótanir í garð samflokksfólks í kjördæminu og Haraldur auk þess sagður frekur, líkt og fjallað var um í umfjöllun Vísis. En niðurstaðan varð annað sætið fyrir Harald og því var allt útlit fyrir að hann myndi ekki setjast á þing eftir komandi kosningar.
Það hefur nú breyst.
Brynjar hætti líka við að hætta
Haraldur er annar þingmaður Sjálfstæðisflokks sem er hættur við að hætta eftir að hafa ekki náð tilætluðum árangri í prófkjöri fyrir komandi kosningar. Í gær greindi Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks í Reykjavík, að hann hefði tekið þá ákvörðun að þiggja sæti á lista flokksins. Brynjar lenti í fimmta sæti í prófkjöri flokksins í Reykjavík en hafði sóst eftir öðru sætinu, og þar með oddvitasæti í öðru Reykjavíkurkjördæminu. Niðurstaðan þýddi að Brynjar yrði í þriðja sæti á lista flokksins í öðru kjördæminu, en það er baráttusæti þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur þrjá þingmenn í öðru Reykjavíkurkjördæminu í dag og tvo í hinu.
Í stöðuuppfærslu á Facebook sem Brynjar birti í gær sagði: „Mér var bent á af sérfræðingum í eðli prófkjara og Kremlarlógíu flokksins að niðurstaða prófkjörsins hafi verið í raun verið góð fyrir mig. Að lokum náðist að sannfæra mig um að ég hafi verið sigurvegari prófkjörsins, eiginlega stórsigur.
Eftir að hafa legið undir feldi á þriðju viku, kófsveittur og illa lyktandi hef ég ákveðið að þiggja sæti á listanum, ef það stendur þá enn til boða. Ég er sannfærður um að stefna flokksins sé góð fyrir land og þjóð. Ég tel að ég geti orðið að liði í komandi kosningabaráttu og er sannfærður um að sterkur og breiður Sjálfstæðisflokkur er mikilvægur svo að okkur vegni vel, meira nú en oft áður.
Í Sjálfstæðisflokknum eru margar vistarverur og við erum ólík. En við eigum sameiginlegar hugsjónir sem birtast í grunnstefnu flokksins. Við þurfum hins vegar að berjast fyrir stefnunni og hugsjónunum. Þurfum kjark og þor í stað þess að berast með straumnum, sem á það til að fara í misgóðan farveg, öllum til tjóns.“