Omar Abdel Hamid El-Hussein, maðurinn sem skaut tvo menn til bana í Kaupmannahöfn um helgina, hataði gyðinga. Hann hafði einnig lýst yfir að hann vildi fara til Sýrlands og berjast með liðsmönnum ISIS, íslamska ríkisins. Tveir menn, grunaðir um að hafa aðstoðað Omar Hussein voru í morgun úrskurðaðir í tíu daga gæsluvarðhald.
Rannsókn dönsku lögreglunnar á morðunum í Kaupmannahöfn er komin í fullan gang. Fyrir utan að afla upplýsinga um ferðir Omars Hussein daginn og nóttina örlagaríku kannar lögreglan líka fortíð hans, vinatengsl og hvað eina sem varpað gæti ljósi á hvað það var sem leiddi til voðaverkanna.
Omar Hussein var fæddur og uppalinn í Danmörku, af palenstínsku bergi brotinn og á einn yngri bróður, foreldrarnir skildu. Hann var prýðilegur námsmaður og faðir hans sagði í stuttu viðtali við danskan fjölmiðil að í æsku hefði ekkert bent til annars en Omar yrði góður og gegn þjóðfélagsþegn. Hann dvaldist í Jórdaníu í þrjú ár, lauk aldrei dönsku grunnskólaprófi en stundaði árið 2013 undirbúningsnám við framhaldsskólann í Hvidovre við Kaupmannahöfn með það fyrir augum að komast í háskólanám.
Varð æstur ef minnst var á gyðinga
Ekki liggur ljóst fyrir hvenær og hvernig hann leiddist út í afbrot en skólafélagar hans í Hvidovre segja að hann hafi lítt blandað geði við aðra nemendur án þess þó að vera beinlínis utanveltu. Hann hafi hatað gyðinga og ef þau mál bar á góma varð hann æstur og óðamála að sögn skólafélaganna.
Í nóvember 2013 stakk hann mann í lærið með hnífi og fékk þá fangelsisdóm og var jafnframt rekinn úr skólanum. Hann losnaði úr fangelsinu fyrir nokkrum vikum en hafði iðulega talað um, meðan hann sat inni, að hann vildi gjarna fara til Sýrlands og berjast með liðsmönnum íslamska ríkisins.
Eftir að Omar losnaði úr fangelsinu bjó hann á Nørrebro í Kaupmannahöfn en hafði ekki fasta vinnu. Hann hafði áður en hann hlaut dóminn fyrir hnífstunguna komist nokkrum sinnum í kast við lögin og hlotið dóm fyrir.
Fangelsismálaráð tilkynnti lögreglu um Omar Hussein
Fangelsismálaráð, sem fylgist með föngum í dönskum fangelsum, hafði greint lögreglu frá Omari Hussein. Ástæður þess voru ekki hvað síst öfgafullar skoðanir á gyðingum. Ekki var þó talin ástæða til að fylgjast með honum enda slíkt ekki gert nema brýn ástæða sé til.
Fram hefur komið að þegar Omar Hussein gerði atlöguna að bænahúsi gyðinga var hann ekki með sama vopnið og þegar hann réðst að samkomuhúsinu á Austurbrú. Vopnið sem hann notaði í fyrra skiptið hefur fundist, það er mjög öflugur hríðskotariffill sömu gerðar og danski herinn notar. Ekki er vitað hvernig maðurinn komst yfir riffilinn en hugsanlegt er talið að honum hafi verið stolið úr geymslum hersins í Antvorskov á Vestur-Sjálandi árið 2009. Þá var 44 rifflum af þessari gerð stolið þaðan, ásamt fleiri vopnum og skotfærum. Þjófarnir náðust og fengu þunga dóma en einungis hluti vopnanna fannst. Rannsókn leiðir væntanlega í ljós hvort rifflinum hefur verið stolið frá hernum. Lögreglan hefur ekki látið neitt uppi um vopnið sem notað var í seinna skiptið.
Blómvöndur sem lagður hefur verið fyrir framan samkomuhúsið á Austurbrú, þar sem fyrri árásin átti sér stað.
Hafði fataskipti eftir fyrra tilræðið
Talsmaður lögreglu sagði á fréttamannafundi að Omar Hussein hefði greinilega verið búinn að skipuleggja vel þau ódæðisverk sem hann ætlaði sér að fremja. Honum hefði verið fullkunnugt um að hann myndi sjást á eftirlitsmyndavélum sem eru mjög víða og fljótlega eftir fyrra tilræðið myndu birtast myndir sem sýndu dökkklæddann mann með rauða áberandi húfu. Þess vegna hefði hann haft fataskipti í millitíðinni og klæddist þá ljósgrárri hettuúlpu.
Fólk sem sá Omar Hussein á leið til samkomuhússins þekkti hann strax þegar myndirnar birtust ekki síst vegna húfunnar. Lögreglan áttaði sig hinsvegar strax á því, eftir að hafa séð myndir, úr eftirlitsmyndavél, af manninum í gráu hettuúlpunni að þarna var sami maðurinn á ferð, þessar myndir birti lögreglan í dag og lýsti jafnframt eftir fleiri vitnum.
Tveir úrskurðaðir í gæsluvarðhald
Eins og fram hefur komið fór Omar Hussein í íbúðarhús á Nørrebro fljótlega eftir fyrra tilræðið. Þar stoppaði hann stutt en fór síðan í annað hús skammt frá. Lögregla sat svo fyrir honum og skaut hann til bana að morgni sunnudags. Fjórir menn voru síðar handteknir í íbúðunum, annarri eða báðum, en tveimur þeirra var sleppt eftir yfirheyrslur. Hinir tveir voru í dag úrskurðaðir í tíu daga gæsluvarðhald. Lögregla telur að þeir hafi aðstoðað Omar Hussein við að komast yfir áðurnefndan riffil (og ef til vill hitt vopnið líka) og þeir hafi skotið yfir hann skjólshúsi, vitandi hvað hann hafði aðhafst fyrr um daginn.
Vera má að lögreglan hafi fleiri upplýsingar um mennina tvo þótt það hafi ekki verið látið uppi enn sem komið er. Verði þeir ákærðir og fundnir sekir um að taka þátt í hryðjuverkum bíða þeirra þungir dómar. Verði niðurstaðan sú að þeir hafi aðstoðað hryðjuverkamann, eða menn, er refsingin vægari en eigi að síður margra ára fangelsi.
Á netkaffi áður en hann réðst að bænahúsinu.
Meðal þess sem rannsókn lögreglu beinist að er hvar Omar Hussein hélt sig seinni part laugardagsins, eftir fyrra tilræðið og áður en hann fór niður í Krystalgade og réðst að bænahúsinu. Fyrr í dag greindi lögregla frá því að hann hefði verið á netkaffi á Nørrebro í að minnsta kosti hálfa klukkustund á laugardagskvöldið. Hvort hann var þar einn á ferð eða ekki liggur ekki fyrir enn sem komið er.
Búast má við að lögreglurannsókn taki marga mánuði. Talsmaður lögreglu hefur ekki viljað segja neitt um það annað en að þar sé mikið verk fyrir höndum. Hann gat þess líka að það væri sérstakt rannsóknarefni að komast að því hvað það væri sem fengi unga menn til voðaverka eins og hér hefðu verið framin.
Minningarstundir
Mörg þúsund manns lögðu í gær leið sína að samkomuhúsinu á Austurbrú og að bænahúsinu við Krystalgade.
Minningarstundir fara fram í kvöld á allmörgum stöðum í Danmörku. Búist er við miklu fjölmenni á Austurbrú en verða danskir þingmenn og ráðherrar, sendiherrar erlendra ríkja og fjölmargir erlendir gestir. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra og Dagur B. Eggertsson verða viðstaddir. Danski fáninn hefur verið í hálfa stöng á opinberum byggingum og stofnunum um allt land í dag.