Innan Vinstri grænna eru háværar raddir um að rétt sé að flokkurinn segi sig úr samráðsnefnd um losun fjármagnshafta. Ástæðan er það samráðsleysi um málið sem stjórnarandstaðan hefur gagnrýnt mikið. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, spurði Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsmálaráðherra, á Alþingi í gær um grein fjögurra InDefence manna í Kjarnanum, þar sem þeir viðruðu hugmyndir um 60 prósenta útgönguskatt á kröfuhafa sem vilja fara með eignir sínar frá Íslandi.
Katrín spurði Bjarna einnig um afstöðu hans til þess að áætlun um losun hafta sé leynileg, eins og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði síðast á mánudag að væri nauðsynlegt. Katrín spurði hvort það væri ekki einmitt mikilvægt að almenningur í landinu sé upplýstur um losun hafta, vegna þess að málið geti haft mjög mikil áhrif á almenning.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, þvertekur fyrir að ákvörðun hafi verið tekin um að leggja á útgönguskatt.
Þvertekur fyrir ákvörun um útgönguskatt
Bjarni þvertók fyrir að ákvörðun hafi verið tekin um álagningu útgönguskatts til að stíga skref í átt að losun fjármagnshafta. "Varðandi útgönguskattinn hef ég margoft tekið fram að ekki hefur verið tekin ákvörðun um útgönguskatt og þaðan af síður hef ég boðað einhverja tiltekna prósentu sem menn eru farnir að vísa til."