Bandaríska sjónvarpsstöðin HBO frumsýndi í gær stiklu úr væntanlegri heimildamynd óskarsverðlaunaleikstjórans Alex Gibney um Vísindakirkjuna. Myndin heitir „Going Clear: Scientology and the Prison of Belief,“ og er byggð á samnefndri bók Lawrence Wright sem olli miklu fjaðrafoki þegar hún kom út árið 2013. Gibney er einna þekktastur fyrir að hafa skrifað og leikstýrt heimildamyndinni um Enron.
Mikil eftirvænting ríkir vegna myndarinnar, en hún ku hlaðin hneykslismálum samkvæmt blaðamönnum sem börðu hana augum á Sundance kvikmyndahátíðinni á dögunum. Kjarninn greindi frá frásögnum blaðamannanna 26. janúar síðastliðinn.
Í heimildamyndinni er sagt frá því hvernig Vísindakirkjan vann markvisst að því að fá stórstjörnuna Tom Cruise til að skilja við þáverandi eiginkonu sína Nicole Kidman.
Margir hafa beðið spenntir eftir að berja myndina augum, og ekki minnkaði eftirvæntingin þegar fréttist af því að HBO hefði ráðið um 160 lögfræðinga til að rýna í myndina fyrir frumsýningu hennar, til að forðast lögsóknir. Svo uggandi er Vísindakirkjan yfir viðbrögðum almennings við myndinni að hún keypti heilsíðuauglýsingu í dagblaðinu New York Times á dögunum, þar sem trúverðugleiki myndarinnar er dreginn í efa og leikstjórinn gagnrýndur fyrir að gefa kirkjunni ekki nægilegt tækifæri til að svara fyrir sig.
Heimildamyndin um Vísindakirkjuna verður frumsýnd á HBO sjónvarpsstöðinni 29. mars næstkomandi, en hægt er að horfa á stikluna úr myndinni hér að neðan.