Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar og Katrín Jakobsdóttir formaður VG og forsætisráðherra ræddu málefni öryrkja í fyrsta óundirbúna fyrirspurnatíma nýs þings á Alþingi í gær.
Logi hóf mál sitt á því að vitna í stefnuræðu forsætisráðherra þar sem hún talaði um að bæta þyrfti kjör öryrkja. „Við lestur fjárlagafrumvarpsins sést þó að það eina handfasta sem ríkisstjórnin hyggst gera er að hækka grunnbætur öryrkja um 1 prósent umfram árlega og lögbundna hækkun upp á 4,6 prósent. Á sama tíma hefur launavísitalan hækkað um 7,6 prósent á árinu. Sé auk þess tekið tillit til verðbólgu batna kjörin sem sagt ekkert og enginn raunverulegur vilji birtist hjá ríkisstjórninni til að jafna þennan órétt,“ sagði hann.
Telur Logi að það sé erfitt að sjá að ríkisstjórnin hafi einhverja afsökun í málinu. „Afkoma ríkissjóðs varð 120 milljörðum betri á þessu ári en óttast var en í fjárlagafrumvarpinu sést að aðeins 1,3 milljarðar eru veittir til almennings aukalega umfram það lögbundna þrátt fyrir þennan afkomubata.“
Hann spurði því Katrínu hvort hún væri sammála honum um það að þessi aukning gerði lítið til að bæta kjör þessara tekjulágu hópa og gerði ekkert til að draga úr tekjugliðnuninni.
Fyrsta skrefið af mörgum
Katrín svaraði og benti á að þó að afkoma ríkissjóðs væri betri þá gerðu áætlanir engu að síður ráð fyrir tæplega 170 milljarða króna halla á rekstri ríkisins á þessu ári.
„Þessi staðreynd hefði einhvern tímann þótt sláandi, en vegna þess að við höfum tekið þá ákvörðun að við ætlum að vaxa út úr þessari kreppu, að við nálgumst hana af ákveðnu æðruleysi, þá sjáum við um leið ekki verulega aukningu á útgjöldum í þessum fjárlögum vegna þess að við erum að gefa okkur tíma til að vaxa út úr kreppunni til aukinnar velsældar.“
Hvað varðar örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega þá sagði Katrín að það væri rétt sem Logi benti á að greiðslur til þeirra tækju sérstakri prósentsviðbótarhækkun umfram 4,6 prósent, sem væri þá viðbótarhækkun upp á 800 milljarða króna. „Á síðasta kjörtímabili, þó að við ætlum ekki að dvelja við það, vörðum við 4 milljörðum króna í að bæta kjör örorkulífeyrisþega og þeim var fyrst og fremst varið í það verkefni að draga úr skerðingum sem hefur verið eðlilegt baráttumál talsmanna þessa hóps.“
Hún sagði að þetta væri einungis fyrsta skrefið af mörgum en mikilvægasta verkefnið þegar kemur að örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegum væri að endurskoða kerfið.
„Því var ekki lokið á síðasta kjörtímabili. Því verkefni verðum við að ljúka á þessu kjörtímabili til að gera þetta kerfi réttlátara og gagnsærra og tryggja afkomu ekki síst þeirra sem höllustum fæti standa, en framkalla líka rétta hvata til aukinnar virkni og þátttöku þeirra sem það geta. Þetta er verkefnið sem við stöndum frammi fyrir. Ég treysti á það að nýr félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra muni eiga gott samráð við Alþingi um þetta verkefni því að við erum búin að ræða þetta í óteljandi skipti hér í þingsal. Ég er alveg viss um að við getum náð samstöðu um þetta mikilvæga verkefni,“ sagði hún.
Fólk borðar ekki samráð eða býr í því
Logi steig aftur í pontu og sagði: „Hefst nú sami söngurinn um að endurskoða kerfið. Auðvitað er það nauðsynlegt en það er býsna ómanneskjulegt að láta fólk bíða árum saman eftir þessari endurskoðun, fólkið borðar ekki þetta samráð og býr ekki heldur í því.“
Hann sagðist jafnframt ekki hafa haldið því fram að staðan á ríkissjóði væri góð. „Ég er miklu frekar að spyrja: Er hún nógu slæm til að skilja þessa hópa enn og aftur eftir? Þess vegna hlýt ég bara að endurtaka spurninguna til hæstvirts forsætisráðherra: Er hún sammála mér um að þessi aukning geri lítið sem ekkert til að bæta kjörin og er hún sammála mér um að kjaragliðnun muni halda áfram? Já eða nei,“ spurði hann.
Hefur trú á að Alþingi takist að ná samstöðu um réttlátt kerfi
Katrín sagði í kjölfarið að verið væri að leggja aukna fjármuni til þess verkefnis að bæta kjör örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega.
„Eins og kom skýrt fram í fyrra svari mínu er það einungis fyrsta skrefið af fleirum og eins og kom skýrt fram: Já, sami söngur en það er vegna þess að verkefnið hefur ekkert farið frá okkur og við megum ekki gefast upp á því verkefni að gera þetta kerfi betra. Við sem höfum tekið þátt í því að samþykkja aukna fjármuni til að bæta kjör örorkulífeyrisþega sjáum líka að kerfið er hlaðið innbyrðis skerðingum sem gerir það að verkum að okkur reynist erfitt að tryggja að stuðningurinn nýtist þar sem hann á best heima.
Það er stórt verkefni og ég ætla ekki að falla frá því að eitt mikilvægasta verkefnið sem Alþingi stendur frammi fyrir er að ná samstöðu um miklu réttlátara kerfi. Ég er þess fullviss að við getum það ef við virkilega leggjum okkur fram um að skapa samstöðu um það,“ sagði hún.