Benedikt Jóhannesson, útgefandi Frjálsrar verslunar, segir að fjöldi atvinnurekenda hafi oft og tíðum þrýst á sig og viljað að hann hætti útgáfu tekjublaðsins. Þetta sagði Benedikt í viðtali í þættinum Launaþátturinn á sjónvarpsstöðinni Hringbraut. Tekjublað Frjálsrar verslunar kemur út árlega og sýnir tekjur yfir þrjú þúsund Íslendinga, byggt á álagningarskrám Ríkisskattstjóra. Blaðið hefur komið út í aldarfjórðung.
Í frétt Hringrbrautar er haft eftir Benedikt að birtingin sé þyrnir í augum margra atvinnurekenda. Þeir hafi margir hverjir hringt og þrábeðið um að útgáfunni verði hætt því hún kalli á elífan samanburð á launum innan fyrirtækja, og mikinn og viðvarandi þrýsting á kauphækkanir. Hann hafi þó aldrei látið segjast, enda líti hann á útgáfu blaðsins sem mikilvæga upplýsingu fyrir landsmenn, sem auðveldi launafólki að semja um kjör sín. Fullkomlega eðlilegt sé að fólk beri saman laun sín og skoði hvernig kaupin gerist á eyrinni. Það veiti aðhald, en leyndarhyggja skapi aðeins óþarfa tortryggni.