Það er nauðsynlegt, og löngu orðið tímabært, að Ísland setji sér stefnu í ferðamannamálum. Við sjáum það á fréttum reglulega hvernig fer þegar fjöldi ferðamanna er á landi sem er ekki tilbúið fyrir áganginn. Við sjáum líka sums staðar merki um að gullgrafaraæði hafi gripið um sig. Ýmiss konar miður skemmtilegir fylgifiskar fylgja auknum straumi ferðamanna, en enginn þeirra er óyfirstíganleg hindrun eða ástæða til að bölsótast um of.
Það þarf bara að taka þessum málum föstum tökum. Það er í góðu lagi og nauðsynlegt jafnvel að „taka umræðuna“. Við þurfum að ræða um stefnu eða skort á stefnu hjá yfirvöldum í sveitarstjórnum og ríki. Við getum líka rætt um þróunina í höfuðborginni, áhrif allra þessara hótela og Airbnb íbúða, lundabúða og svo framvegis.
En eitt má ekki gleymast, sérstaklega þegar rætt er um miðborgina, og það er að Reykjavík hefur líklega aldrei verið eins lífleg og skemmtileg og hún hefur verið undanfarin misseri. Þetta er ekki eingöngu, en samt að hluta til, ferðamannastraumnum að þakka. Öllum ferðamönnunum fylgir líf og fjör, þótt okkur finnist stundum nóg um, og þeir eru þess valdandi að við heimamenn getum notið mun fleiri veitingastaða og meiri þjónustu.
Svo er bara ekkert langt síðan að miðbærinn var hálftómur meirihluta ársins. Þar sást varla hræða á götum úti nema rétt fyrir jól og á góðviðrisdögum. Núna iðar miðbærinn af lífi frá morgni til kvölds, hvort sem er í febrúar eða júlí. Það hlýtur bara að vera okkur öllum fagnaðarefni.
Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.