Landsbankinn, sem er nánast að öllu leyti í eigu íslenska ríkisins, ætlar að byggja nýjar 14.500 höfuðstöðvar við Austurhöfn í Reykjavík. Það finnst ríkisbankanum góð hugmynd árið 2015, sjö árum eftir að íslenska bankakerfið hrundi til grunna eins og spilaborg, með öllum sínum hégóma.
Áætlaður kostnaður (sem auðvitað stenst í þetta skiptið) er um átta milljarðar króna, og þar eru kaup á einni dýrustu lóð borgarinnar meðtalin. Sem fyrr, finnst ríkisbankanum sem starfar á fordæmalausum fákeppnismarkaði, það góð hugmynd að ráðast í jafn glysgjarna og kostnaðarsama framkvæmd í miðju anddyri borgarinnar.
Það að Landsbankinn sé enn fastur í hugsunarhætti áranna í aðdraganda bankahrunsins, hinum svokallaða 2007 þankagangi, þar sem hégómagirnd og sýniþörf réði ríkjum, er áhyggjuefni út af fyrir sig. En að telja í fúlustu alvöru að fjármunum bankans, sem vel má vera að þurfi að stækka við sig, sé best varið með því að ráðast í átta milljarða nýbyggingu, svo starfsmenn bankans geti fengið útsýni yfir Reykjavíkurhöfn, er í besta falli fráleitt.
Hvernig væri, í stað þess að kaupa eina dýrustu lóð höfuðborgarsvæðisins undir nýja milljarða króna glanshöll, að róa frekar öllum árum að því að bæta kjör viðskiptavina sinna, eða greiða hærri arð til ríkissjóðs? Pæling.
Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.