Heiða Björg Hilmisdóttir, varaformaður og borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, verður næsti formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, en hún hafði betur í rafrænni kosningu landsþingsfulltrúa sambandsins sem hófst 15. ágúst og lauk í dag. Heiða Björg hefur verið varaformaður sambandsins undanfarin ár.
Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði bauð sig fram gegn Heiðu Björgu og afar mjótt var á munum. Alls voru 152 landsþingsfulltrúar á kjörskránni og kosningaþátttakan 98,03 prósent.
Heiða Björg fékk 76 atkvæði, 51,01 prósent atkvæða, en Rósa hlaut 73 atkvæði, 48,99 prósent.
Það verður því Heiða Björg sem mun því taka við embætti formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga á landsþingi sambandsins sem fer fram á Akureyri undir lok næsta mánaðar. Þar verður sömuleiðis kjörin ný stjórn sambandsins.
Í tilkynningu Sambands íslenskra sveitarfélaga segir að Heiða Björg sé fædd og uppalin í Eyjafirði, en hún hefur búið í Reykjavík nær öll sín fullorðinsár.
Heiða Björg var kjörin varaformaður Samfylkingarinnar í febrúar 2017, hefur setið í borgarstjórn Reykjavíkur í 9 ár og verið varaformaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga síðustu 4 ár.