Heiða Kristín Helgadóttir, sem stýrði Umræðunni, vikulegum þætti um stjórnmál á Stöð 2, mun ekki starfa áfram hjá fyrirtækinu. Hún segist ekki ætla að taka sæti Bjartar Ólafsdóttur, þingmanns Bjartrar framtíðar, að svö stöddu, en Björt er komin í fæðingarorlof. Heiða Kristín er varaþingmaður hennar.
Aðspurð hvort hún ætli að fara aftur í stjórnmál segir Heiða Kristín að það þurfi mikið að gerast hjá Bjartri framtíð, flokkinum sem hún tók þátt í að stofna, til að henni finnist ákjósanlegt að stíga inn á þann vettvang á ný. „Mér finnst vandi Bjartrar framtíðar vera inni í Bjartri framtíð, hann er ekki vandi kjósenda. Vandinn er ekki tilkominn vegna þess að kjósendur skilja ekki flokkinn heldur er hann vandi formannsins [Guðmundar Steingrímssonar] og þeirra sem starfa í Bjartri framtíð.“
Heiða Kristín segir vanda Bjartrar framtíðar ekki tilkominn vegna skilningsleysi kjósenda á flokknum heldur sé hann „vandi formannsins [Guðmundar Steingrímssonar] og og þeirra sem starfa í Bjartri framtíð."Heiða Kristín segir að í nánustu framtíð ætli hún sér að starfa með nýstofnuðu fyrirtæki, Borgarbrag ehf., sem eiginmaður hennar hafi nýverið sett á fót í samstarfi við aðra og sinna stjórnarsetu í góðgerðarsjóðnum Best Peace Solution.
Fylgi Bjartrar framtíðar hefur hríðfallið undanfarið. Í könnun sem MMR birti í dag sögðust einungis 4,4 prósent kjósenda ætla að kjósa flokkinn, sem er versta útkoma hans í mælingum MMR á þessum kjörtímabili. Miðað við það fylgi myndi Björt framtíð ekki ná inn manni í komandi kosningum.
Áhorf á Ísland í dag hríðféll
Í byrjun apríl síðastliðins var tilkynnt um breytingar á Íslandi í dag. Í þeim fólst meðal annars að þættirnir yrðu að að jafnaði lengri en áður, eða um 40 mínútur að lengd, og þeir gerðir í meiri samvinnu við fréttastofu 365. Auk þess yrðu sérstakir þættir um stjórnmál, efnahagsmál og viðskiptalíf undir hatti Íslands í dag. Þannig átti þátturinn alltaf að fjalla um málefni líðandi stundar og tengjast betur þjóðmálaumræðunni en hann hafði gert undanfarin ár.
Sérstaki þátturinn um stjórnmál hét Umræðan, var einu sinni í viku og honum var stýrt af Heiðu Kristínu.
Áhorf á hið nýja Ísland í dag hefur ekki staðið undir væntingum. Í lok febrúar var meðaláhorf á þáttinn yfir 16 prósent og viku áður en breytingar á honum voru innleiddar horfðu 14,1 prósent á hann. Samkvæmt mælingum Gallup horfðu tólf prósent á Ísland í dag fyrstu vikuna eftir breytingar og 8,8 prósent vikuna eftir það. Í síðustu viku júnímánaðar var áhorfið sjö prósent. Samkvæmt heimildum Kjarnans verður þátturinn stokkaður töluvert upp fyrir næsta vetur. Á meðal þeirra sem hverfa á braut er Heiða Kristín, en samningur hennar við 365 miðla rann út í lok júní.
Í lok febrúar var meðaláhorf á þáttinn yfir 16 prósent og viku áður en breytingar á honum voru innleiddar horfðu 14,1 prósent á hann. Samkvæmt mælingum Gallup horfðu tólf prósent á Ísland í dag fyrstu vikuna eftir breytingar og 8,8 prósent vikuna eftir það. Í síðustu viku júnímánaðar var áhorfið sjö prósent.
Stofnaði Besta flokkinn og Bjarta framtíð
Heiða Kristín var ráðin til 365 miðla í janúar síðastliðnum til að stýra þættinum. Mánuði áður hafði hún tilkynnt að hún myndi hætta sem stjórnarformaður Bjartrar framtíðar og hætta öllum afskiptum af stjórnmálum.
Heiða Kristín kom að stofnun Besta flokksins fyrir sveitastjórnarkosningarnar 2010 og síðar Bjartrar framtíðar. Hún var um tíma aðstoðarmaður Jóns Gnarr borgarstjóra, framkvæmdastjóri borgarstjórnarflokks Besta flokksins, varaformaður Besta flokksins, stjórnarformaður og framkvæmdastjóri Bjartrar framtíðar. Hún bauð sig fram fyrir hönd Bjartrar framtíðar í síðustu alþingiskosningum en náði ekki kjöri. Hún er fyrsti varaþingmaður flokksins í Reykjavík norður.