Heiðrún Jónsdóttir, lögmaður hefur verið ráðin sem framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF). Hún hefur þegar hafið störf.
Heiðrún tekur við starfinu af Katrínu Júlíusdóttur, fyrrverandi fjármálaráðherra og varaformaður Samfylkingarinnar, sem tilkynnti í lok ágúst að hún hefði sagt starfi sínu lausu og uppsögn hennar tók gildi 1. september. Katrín hafði verið framkvæmdastjóri SFF síðan 2016.
Innan Samtaka fjármálafyrirtækja eru 25 aðildarfélög. Þar starfa nú sex starfsmenn. Stjórnarformaður er Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans.
Heiðrún segist hlakka til að taka til starfa hjá SFF. „Innan aðildarfélaganna starfar öflugur, fjölbreyttur og kraftmikill hópur sem ég hlakka til að starfa með. Verkefnin eru fjölbreytt og afar áhugaverð. Fjármálafyrirtæki gegna mikilvægu hlutverki í íslensku samfélagi og markaðurinn er síbreytilegur og fjölbreyttur. “