Björn Zoëga, forstjóri Karolinska sjúkrahússins í Svíþjóð og fyrrverandi forstjóri Landspítalans, hefur verið ráðinn sem ráðgjafi af Willum Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra.
Um er að ræða tímabundið hlutastarf meðfram störfum Björns sem forstjóra. Hann hefur þegar hafið störf.
Í tilkynningu á vef stjórnarráðsins segir Willum að Landspítalinn sé hryggjarstykkið í okkar heilbrigðiskerfi. „Spítalinn verður að geta sinnt sínu mikilvæga hlutverki nú og í framtíðinni. Þá er gott samspil spítalans við aðra þætti heilbrigðiskerfisins lykilatriði. Umtalsverðar breytingar á rekstri og yfirstjórn Landspítalans munu eiga sér stað á næstunni og því er gríðarlega mikilvægt að sérfróðir aðilar með þekkingu á rekstri slíkrar stofnunar séu til að veita ráð við slíka vinnu.“
Meðal þess sem liggi til grundvallar þeirri vinnu sem sé framundan séu áherslur í heilbrigðismálum í nýjum stjórnarsáttmála, innleiðing þjónustutengdrar fjármögnunar og greiningarvinna sem gerð hefur verið á framtíðarþjónustu Landspítala.
Páll Matthíasson tilkynnti fyrir nokkru að hann myndi hætta sem forstjóri Landspítalans. Starfið verður auglýst laust til umsóknar en skipað verður í það frá 1. mars 2022. Í nýjum stjórnarsáttmála var tilkynnt að stjórn yrði skipuð yfir spítalann.
Hætti árið 2013
Björn var ráðinn forstjóri Landsspítalans árið 2010 en sagði upp störfum í lok september árið 2013. Hann sagði í yfirlýsingu vegna uppsagnarinnar að nokkrar ástæður væru fyrir uppsögn sinni og nefndi sérstaklega fjárskort spítalans. Hann sagði nauðsynlega uppbyggingu ekki hafa verið í augsýn á þeim tíma.
Þetta var í annað sinn á rúmlega ári sem Björn tók ákvörðun um að hætta sem forstjóri Landspítala. Það ætlaði hann að gera árið áður þegar honum barst boð um starf erlendis. Eftir viðræður við Guðbjart Hannesson, þáverandi heilbrigðisráðherra, ákvað Björn að halda áfram í starfi forstjóra. Þá fékk hann loforð um aukið fjárframlag til tækjakaupa og um fleiri aðgerðir í þágu spítalans. Björn átti einnig að fá launahækkun en ekkert varð af henni vegna harðrar gagnrýni starfsfólks á spítalanum.
Hann var ráðinn forstjóri Karolinska sjúkrahússins í Svíþjóð árið 2019.
Sagði þörf á bæði einka- og opinberum rekstri í kerfinu
Björn hefur nýverið rætt sýn sína á vanda Landspítalans. Á fundi Samtaka atvinnulífsins og Samtaka verslunar og þjónustu sem haldinn var í ágúst 2021 sagði hann að þörf væri á bæði einkarekstri og opinberum rekstri í heilbrigðiskerfinu.
Í viðtali við Kastljós í september síðastliðnum sagði hann að vandi spítalans fælist í því að hann væri á föstum fjárlögum en ekki fjármagnaður eftir afköstum. Björn sagðist þar einnig telja að það yrði til bóta ef sérstök stjórn yrði yfir Landspítalanum.
Ekki hefði náðst að þróa íslenska heilbrigðiskerfið sem skyldi á síðustu árum, og að hans mati skorti samvinnu milli einstakra hluta þess.