Heildarlaun starfsmanna ríkisins voru að meðaltali 603 þúsund á mánuði árið 2014 og hækkuðum um 5,8 prósent frá árinu 2013. Heildarlaun starfsmanna sveitarfélaga voru að meðaltali 442 þúsund á mánuði og hækkuðu um rúm 8 prósent. Starfsmenn á almennum vinnumarkaði voru að meðaltali með um 580 þúsund króna mánaðarlaun í fyrra, sem er hækkun upp á um 4,5 prósent frá 2013.
Þetta er meðal þess sem lesa má úr niðurstöðum launarannsóknar Hagstofu Íslands um laun og dreifingu launa árið 2014. Gögn rannsóknarinnar ná til um 70 þúsund launþega.
Á almennum vinnumarkaði hækkuðu heildarlaun, það eru regluleg laun auk yfirvinnu og öðrum greiðslum, starfsstétta um 3,8 til 7,2 prósent. Minnst hækkuðu laun þjónustu-sölu og afgreiðslufólks. Hér er litið til meðaltalslauna sem voru 413 þúsund á mánuði meðal starfsmanna þessarar starfsstéttar. Laun stjórnenda hækkuðu um 5,3% á síðasta ári og eru að meðaltali um 1,08 milljónir á mánuði. Laun sérfræðinga hækkuðu mest allra, eða um 7,3%. Taflan hér að neðan sýnir meðallaun þessara starfsstétta á mánuði frá 2012 til 2014.
Fram kemur í frétt Hagstofunnar um niðurstöður rannsóknarinnar að rúmlega helmingur fullvinnandi launamanna hafi verið með heildarlaun undir 500 þúsund krónum á mánuði árið 2014. Um 45 prósent launamanna voru með heildarlaun á bilinu 300 til 500 þúsund krónur, tæplega 30 prósent launamanna voru með heildarlaun á bilinu 500 til 700 þúsund og tæp 20 prósent voru með heildarlaun yfir 700 þúsund krónum á mánuði. Meðaltal heildarlauna var 555 þúsund, þar af 619 þúsund hjá körlum en 486 þúsund hjá konum.