Heilsugæslustöð í London hefur beðist afsökunar á því að hafa óvart greint frá nöfnum og tölvupóstföngum tæplega 800 einstaklinga sem eru með HIV-veiruna. Heilsugæslustöðin sendi út fréttabréf í gær til 780 manns sem eru með HIV. Í stað þess að senda hverjum og einum póst eða fela viðtakendur voru allir viðtakendur sýnilegir í póstinum.
Heilsugæslan baðst fljótt afsökunar og heitir því að rannsaka hvernig á því stóð að þetta gerðist. Þetta er talið vera eitt stærsta persónuverndarbrot af þessu tagi sem nokkurn tímann hefur átt sér stað í Bretlandi.
Guardian greinir frá málinu og hefur eftir Elliot Herman, sem er 38 ára og frá London, að í tölvupóstinum sem hann fékk hafi meðal annars verið að finna nöfn vina hans sem hefðu aldrei greint opinberlega frá því að þeir væru með HIV. „Það er ekki erfitt að leita eftir þessum nöfnum á Facebook og fá upp reikningana þeirra og persónulegar upplýsingar,“ segir hann við Guardian. „Ef upplýsingar um mig væru á þessum lista væri ég reiður og vonsvikinn yfir því að heilsugæslan sé með svo lélegt kerfi að þetta geti gerst.“ Hann hefur sent formlega kvörtun vegna málsins.
Heilsugæslustöðin, sem er á Dean Street í London, sérhæfir sig í kynheilbrigði og meðhöndlun HIV. Á heimasíðu hennar kemur fram að stefnt sé að því að bjóða upp á þjónustu í hæsta gæðaflokki, meðal annars með því að nota tæknina og bjóða fólki að panta tíma og fá niðurstöður í tölvupósti.