Allt árið í fyrra voru ný húsnæðislán veitt af bönkum með fasta vexti 7,5 milljarðar króna, umfram uppgreiðslur og umframgreiðslur. Framan af því ári var flótti úr fastvaxtalánum yfir í lán með breytilega vexti, en heildarumfang nýrra útlána með breytilega vexti sem veitt voru með veði í húsnæði af Landsbankanum, Íslandsbanka og Arion banka var á sama tíma 298,3 milljarðar króna.
Ásókn í lán með föstum vöxtum jókst framan af ári, og ný slík útlán voru upp á 32 milljarða króna á fyrstu fimm mánuðum ársins 2021. Svo tilkynnti Seðlabanki Íslands í maí að hann myndi hækka stýrivexti í fyrsta sinn síðan í nóvember 2018, úr 0,75 prósentum í eitt prósent. Stýrivextirnir höfðu þá lækkað um 3,75 prósentustig á tveimur árum og aldrei verið lægri. Í dag hækkuðu þeir svo í annað sinn á þessu ári, í 1,25 prósent.
Eftir að nýtt vaxtahækkunarferli hófst í maí brast á flótti heimila í fasta vexti, þar sem hægt er að festa vexti í þrjú til fimm ár gegn því að borga meira í vaxtagreiðslur. Í tilfelli kúnna Landsbankans þýðir það til að mynda að viðskiptavinur sem færir sig úr breytilegum vöxtum á óverðtryggðu grunnláni til að kaupa húsnæði skuldbindur sig til að borga tæplega 22 prósent hærri vexti í þrjú ár fyrir föstu vextina. Veðmálið þar snýst um að stýrivextir muni hækka nægilega skarpt á tímabilinu sem vextirnir eru fastir svo að það borgi sig umfram þá hækkun sem verður á kostnaði vegna breytilegu vaxtanna.
Á sama tíma drógust ný útlán kerfislega mikilvægu bankanna á breytilegum vöxtum verulega saman. Í júlí voru þau 6,4 milljarðar króna og hafa ekki verið minni frá því í apríl 2019. Ný útlán á föstum vöxtum voru næstum þrefalt meiri en ný útlán á breytilegum vöxtum í síðasta mánuði.
Þetta kemur fram í nýbirtum hagtölum frá Seðlabanka Íslands um bankakerfið.
Ásóknin enn öll í óvertryggðu lánin
Heimilin í landinu eru þó ekkert að færa sig úr óverðtryggðum lánum og aftur yfir í verðtryggða umhverfið, enda raunvextir á óvertryggðum húsnæðislánum í mörgum tilvikum enn neikvæðir. Það þýðir að verðbólga, sem er 4,3 prósent, sé hærri en nafnvextir lána.
Frá upphafi kórónuveirufaraldursins hérlendis í mars í fyrra, þegar vextir tóku að hríðlækka sem leiddu til stóraukinnar lántöku til húsnæðiskaupa, hafa heimili landsins tekið 616,6 milljarða króna í ný óverðtryggð lán hjá Landsbanka, Íslandsbanka og Arion banka að frádregnum uppgreiðslum og umframgreiðslum.
Það er 219,4 milljörðum krónum meira en heimili landsins tóku í óverðtryggð húsnæðislán hjá bönkunum þremur frá byrjun árs 2013 og til loka febrúar 2020, eða á sjö árum og tveimur mánuðum. Á þeim tíma tóku heimilin alls 397,2 milljarða króna í óverðtryggð lán til að kaupa sér húsnæði.
Frá mars í fyrra og út júlí í ár hafa útlán verðtryggðra húsnæðislána, að frádregnum uppgreiðslum og umframgreiðslum, verið neikvæð um næstum 100 milljarða króna.