Rúmlega 1.800 heimili voru í vanskilum með lán sín hjá Íbúðalánasjóði í apríl síðastliðnum auk þess sem 73 heimili voru með lán sín fryst. Virði undirliggjandi lána í vanskilum til heimila nemur um 33 milljörðum króna eða tæplega fimm prósent af útlánum sjóðsins til heimila. Hlutfallið hefur lækkað mikið síðastliðið ár en það var um 10,3 prósent í apríl 2014. Alls voru 4,28 prósent heimila með fasteignalán sín hjá Íbúðalánasjóði með lánin í vanskilum í lok apríl en sama hlutfall varið 4,52 prósent í mars.
Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs sem birt var síðastliðinn föstudag. Fram kemur að vanskil eða frystingar útlána til einstaklinga ná til 4,96 prósent lánasafnsins. Sambærilegt hlutfall í apríl 2014 var 10,28 prósent. Með lögaðilum meðtöldum ná vanskil eða frystingar til 7,02 prósent lánasafnsins, samanborið við 12,4 prósent í apríl 2014.
Vanskil og frystingar Íbúðalánasjóðs í apríl 2015. Graf úr mánaðarlegri skýrslu Íls.
Heildarútlán í apríl námu 906 milljörðum króna. Þar af voru almenn lán tæplega 300 milljónir króna. Meðalfjárhæð almennra lána var 11,9 milljónir króna. Þá námu uppgreiðslur lána um 1,4 milljörðum króna í apríl samanborið við 2,6 milljarða í mars.