Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, segir það vekja upp tilfinningar sem hann kunni ekki við að lýsa þegar fólk gjaldfelli hugtakið einelti eins og þingmenn meirihlutans hafi gert. Hann hafi sjálfur verið lagður í einelti í æsku og þolendur eineltis ræði slíkt ekki af hreinskilni án þess að fyrr eða síðar falli tár.
Helgi Hrafn talaði um þetta í liðnum störf þingsins á Alþingi í dag. Á undan honum, og í gær líka, höfðu þingmenn Framsóknarflokksins komið fram og talað um að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra væri lagður í einelti og Einar K. Guðfinnsson þingforseti sömuleiðis.
„Persónuhatrið og eineltið hér innanhúss núna það er svo mun verra heldur en var hér á síðasta kjörtímabili og það náði nýjum hæðum þá,“ sagði Vigdís Hauksdóttir þingmaður Framsóknarflokksins í þinginu í gær.
Elsa Lára Arnardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins hélt þessum umræðum áfram í þinginu í dag. Hún sagðist hafa þurft að takast á við eineltismál sem grunnskólakennari og myndi aldrei samþykkja einelti, hvort sem er á þingi eða annars staðar. Hér má horfa á ræðu Elsu.
Helgi Hrafn kom upp í pontu og svaraði umræðunni um einelti. „Hér hafa einstaka þingmenn meirihlutans háttvirtir ýjað að því að forsætisráðherra landsins og forseti þingsins séu lagðir í einelti. Einelti verður ekki rætt ítarlega af þolendum þess af hreinskilni án þess að fyrr eða síðar falli tár. Sem þolandi eineltis í æsku vekur það tilfinningar sem ég kann ekki við að lýsa hér of hreinskilnislega þegar fólk gjaldfellir hugtakið einelti með þeim hætti sem hér hefur verið gert.“ Það að ráðamenn teldu sig lagða í einelti segði honum tvennt. „Eitt: að þeir skilji ekki hugtakið einelti. Og tvö: að þeir skilji ekki eðli sinnar eigin stöðu, forréttinda sinna og valds.“ Horfa má á ræðu Helga Hrafns hér að neðan.
Fleiri þingmenn komu í pontu og sögðu þingmenn meirihlutans gjaldfella hugtakið einelti. „Við vitum um mjög marga sem eiga verulega um sárt að binda vegna þess að þeir hafa orðið fyrir einelti,“ sagði Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður VG, og sagði fólk sem starfað hefði í skólum eiga að vita betur en að leggja gagnrýni á störf valdamanna að jöfnu við einelti.