„Ég tel að það hefði verið eðlilegt að Sigríður (Björk) upplýsti rannsóknaraðila um samskiptin, enda mátti ljóst vera að áhugi Gísla Freys var í ljósi lekans mjög sérkennilegur og gaf ástæðu til að ætla að hann ætti þar hlut að máli.“
Þetta segir Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari, í skriflegu svari við fyrirspurn Kjarnans. Eins og Kjarninn greindi frá í gær, fór Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, með ósannindi í opnuviðtali sem birtist í Morgunblaðinu í gær. Þar fullyrti hún að upplýsingar um samskipti hennar við Gísla Frey Valdórsson, þáverandi aðstoðarmann Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra, hafi legið fyrir hjá lögreglunni.
Helgi Magnús hrakti þessa fullyrðingu í skriflegu svari við fyrispurn Kjarnans. Lögreglu hafi hvorki verið kunnugt um tölvupóstsendingu Sigríðar Bjarkar til Gísla Freys með greinargerð um Tony Omos né að hún hefði notað síma sonar síns til að hringja í Gísla morguninn þegar fyrstu fréttirnar birtust í fjölmiðlum sem byggðar voru á skjalinu sem Gísli lak til fjölmiðla.
„Hvert mannsbarn vissi af rannsókninni, og hún líka“
Aðspurður um hvort ekki hafi verið eðlilegt af Sigríði Björk, sem þá gengdi stöðu lögreglustjóra á Suðurnesjum, að upplýsa um samskiptin við aðstoðarmann innanríkisráðherra, svarar Helgi Magnús: „Við hefðum gjarnan viljað fá upplýsingar um að Gísli Freyr hefði verið að óska eftir og fá sendar upplýsingar um málið, greinargerð. Verðum að hafa það í huga að þetta var algerlega án tengsla við stjórnsýslulega meðferð máls Tony Omos sem þá var lokið í ráðuneytinu og Gísli Freyr hafði enga aðkomu að þeirri afgreiðslu heldur embættismenn ráðuneytisins.
Þessi ósk um gögn og samskipti gáfu því sterklega til kynna með öðru hver hefði staðið að lekanum eins og síðar kom í ljós. En við vorum ekki upplýst um þetta. Hvert mannsbarn á Íslandi vissi af þeirri rannsókn sem síðar fór í gang og hún að sjálfsögðu einnig. Það verður að hafa í huga að lögregla fór fram á við dómstóla að blaðmenn upplýstu um heimildarmenn sína.“