Danska ríkisstjórnin tilnefndi í morgun Helle Thorning-Schmidt, fyrrum forsætisráðherra landsins, sem frambjóðanda hennar til þess að taka við starfi yfirmanns Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Tilkynningin kemur á óvart enda tapaði flokkur Thorning-Schmidt völdum til hægri-blokkarinnar í dönskum stjórnmálum eftir kosningar sem fram fóru fyrr á þessu ári. Lars Løkke Rasmussen, formaður Venstre-flokksins, myndaði í kjölfarið minnihlutastjórn.
Thorning-Schmidt sagði af sér formennsku í danska jafnaðarmannaflokknum í kjölfar kosninganna. Lars Løkke Rasmussen bauð þennan fyrrum andstæðing sinn síðan fram sem frambjóðanda danskra stjórnvalda í stöðu yfirmanns Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna á blaðamannafundi í morgun. Frá þessu er greint á vef Berlinske tidende. Þar segir forsætisráðherrann að hann muni gera allt sem í valdi hans stendur til að tryggja Thorning-Schmidt stöðuna og að hann muni leita eftir stuðningi annarra Evrópuríkja við tilnefningu hennar.
Nýr yfirmaður mun taka við starfinu 1. janúar 2016 en það ætti að liggja fyrir síðar í haust hver mun fá það. Ban Ki-Moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, mun taka þá ákvörðun. "Ég vona að hann velji réttu konuna í starfið," sagði Løkke Rasmussen á blaðamannafundinum í morgun.
Takist að tryggja Thorning-Schmidt starfið yrði það í annað sinn sem danskur stjórnmálamaður myndi gegna því. Poul Hartling, sem var formaður Venstre og forsætisráðherra Danmerkur á áttunda áratugnum, tók við starfinu árið 1977 og hlaut friðarverðlaun Nóbels fyrir starf sitt fyrir flóttamenn árið 1981.
Ljóst er að mikið mun mæða á þeim sem hreppir starf yfirmanns Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, enda stendur heimurinn frammi fyrir mesta flóttamannavanda sínum síðan í síðari heimstyrjöldinni. Talið er að um 60 milljónir manna hafi flúið heimili sín víðsvegar um heiminn og stór hluti þess hóps hefst við í flóttamannabúðum. Hlutverk stofnunarinnar er að veita flóttamönnum heimsins vernd og aðstoð. Hún var sett á laggirnar árið 1951 og höfuðstöðvar hennar eru í Genf í Sviss. Upphaflega var tilgangur stofnunarinnar að aðstoða flóttamenn í Evrópu eftir síðari heimstyrjöldina.