Heildartekjur ríkasta 0,1 prósent landsmanna, um 200 fjölskyldna, voru um 28 milljarðar króna á árinu 2013. Þar af voru um 14,4 milljarðar króna fjármagnstekjur. Þ.e. tekjur sem hópurinn hafði af fjárfestingum sínum. Tæpur helmingur tekna þeirra, 13,6 milljarðar króna, voru tekjur án fjármagnstekna.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn Árna Páls Árnasonar, formanns Samfylkingarinnar, um eignir og tekjur landsmanna.
Ríkustu taka til sín mestu fjármagnstekjurnar
Það eitt prósent landsmanna sem er með hæstu tekjurnar tók til sín 94,4 milljarða króna í tekjur á árinu 2013, eða 7,9 prósent af öllum tekjum. Þar af voru um 27,8 milljarðar króna fjármagnstekjur. Hópurinn hefur aldrei í sögunni tekið til sínn hærri krönutölu í aðrar tekjur en fjármagnstekjur, t.d. launatekjur en á því ári. Þá numu þær 66,6 milljörðum króna.
Tekjuhæstu fimm prósent landsmanna fengu 21,5 prósent allra tekna í sinn vasa árið 2013. Það er umtalsvert hærra hlutfall en rataði til hópsins, um tíu þúsund fjölskyldna, á tíunda áratugnum, en miklu lægra hlutfall en hópurinn tók til sín á góðærisárinu 2007. Þá tók launahæsti fimm prósent hluti landsmanna 33,2 prósent launa til sín.
Heildartekjur þessa hóps voru 257,6 milljarðar króna árið 2013. Þar af voru um 41 milljarðar króna fjármagnstekjur. Af þeim fer um 2/3 fjármagnstekna til þeirra um tvö þúsund fjölskyldna sem eru með hæstu tekjurnar.