Mun fleiri íslenskir unglingar en áður vilja búa í útlöndum í framtíðinni. Mun fleiri búast við því að sú verði raunin. Þetta eru niðurstöður nýrrar rannsóknar Háskólans á Akureyri, sem er hluti af evrópsku ESPAD rannsókninni, en greint er frá málinu á vefsíðu Akureyri vikublaðs.
ESPAD-rannsóknin er lögð fyrir alla unglinga í 10. bekk á fjögurra ára fresti. Þóroddur Bjarnason prófessor í félagsfræði er stjórnandi rannsóknarinnar hér á landi og hann segir búsetuóskir unglinga gefa vísbendingu um stemmninguna í unglingasamfélaginu og að hluta til í samfélaginu í heild. „Svör sextán ára unglinga eru vitaskuld ekki áreiðanlegur mælikvarði á ákvarðanir hvers og eins í framtíðinni. Sumir hætta við að flytja og aðrir flytja þótt þeir hafi ekki ætlað sér það á unglingsárum.“ Hann segir hins vegar að íslenskar rannsóknir hafi sýnt að búsetufyrirætlanir unglinga hafi býsna gott forspárgildi fyrir þróun einstakra byggðarlaga yfir lengri tíma.
Fyrir hrun sagðist um þriðjungur íslenskra unglinga vilja helst búa erlendis, en hlutfallið er nú sem fyrr segir helmingur. Ekki gera allir ráð fyrir því að þessar óskir gangi eftir, en þó hefur sá fjöldi farið úr 18 prósentum árið 2003 í 37 prósent nú.
Þá sjá færri unglingar höfuðborgarsvæðið fyrir sér sem framtíðarheimili, eða 27 prósent á móti 38 prósentum fyrir tólf árum síðan. Unglingar sem búa á höfuðborgarsvæðinu vilja í minni mæli búa þar áfram. Landsbyggðarunglingar vilja líka í minni mæli búa áfram á landsbyggðinni.