Artur Nikolayevich Chilingarov heitir maður sem situr á þingi í Rússlandi fyrir Sameinað Rússland, flokk Vladimírs Pútíns forseta. Hann hefur líka verið sérstakur ráðgjafi forsetans varðandi alþjóðasamstarf á norðurslóðum.
Sami maður hefur einnig frá árinu 2013 átt sæti í sérstakri heiðursstjórn Hringborðs Norðurslóða – Arctic Circle, samtaka sem stofnuð voru af Ólafi Ragnari Grímssyni fyrrverandi forseta Íslands. Samtökin hafa staðið fyrir samnefndri ráðstefnu í Hörpu og öðrum viðburðum um málefni norðurslóða á undanförnum árum.
Setti rússneskt flagg á hafsbotninn á Norðurpólnum
Chilingarov hefur verið framámaður í norðurslóðamálum í Rússlandi um langt skeið. Hann fæddist í Leníngrad árið 1939, nam bæði verkfræði og haffræði og var á sjöunda og áttunda áratugnum stjórnandi rannsóknastöðva Sovétríkjanna á norðurslóðum.
Hann hefur staðið í stafni fyrir fjölda vísindaleiðangra Rússa á norðurslóðum og Suðurskautslandinu og var meðal annars lykilmaður í frægum leiðangri í upphafi árs 2008 – sem olli nokkrum titringi í alþjóðapólitík – þar sem Chilingarov og félagar fóru niður á sjávarbotninn beint undir Norðurpólnum á litlum kafbátum og settu þar niður rússneskan fána.
„Norðurskautið er rússneskt,“ hafði BBC eftir Chilingarov þegar þeim leiðangri lauk, en Rússar höfðu þá þegar gert tilkall til stórs hluta Norður-Íshafsins og þar á meðal sjálfs Norðurpólsins, á grundvelli þess að Lomonosov-neðansjávarhryggurinn sé í reynd framlenging á rússneska meginlandinu og liggi út frá því.
Þess má geta að í fyrra útvíkkuðu Rússar formlegar kröfur sínar til hafsvæðis á Norðurslóðum enn frekar og að auk Rússlands gera bæði Danir og Kanadamenn til til hafsvæðisins í kringum Norðurpólinn.
Hetja bæði Rússlands og Sovétríkjanna
Eftir leiðangurinn árið 2008 var Chilingarov sæmdur æðsta opinbera heiðri Rússlands sem er það að vera útnefndur Hetja Rússlands. Með því bætti enn einni orðunni í safnið, en á tímum Sovétríkjanna var hann einnig útnefndur Hetja Sovétríkjanna og hlaut Lenínsorðuna, auk margra annarra verðlauna.
Svo er það pólitíkin. Chilingarov tók fyrst sæti á Dúmunni, neðri deild rússneska þingsins, árið 1993 fyrir Sameinað Rússland. Þar sat hann óslitið fram til ársins 2011 og gegndi meðal annars hlutverki varaforseta neðri deildarinnar. Árið 2016 tók hann sæti í sambandsþinginu, efri deild þingsins, fyrir hönd Tula-héraðs í vesturhluta landsins. Þar sat hann til 2014.
Hann var svo aftur kjörinn inn á Dúmuna árið 2016 og hefur setið þar óslitið síðan og hefur auk þess verið sérstakur ráðgjafi Vladimírs Pútíns um alþjóðasamstarf á norðurslóðum og Suðurskautslandinu.
Fjórir í heiðursstjórninni
Sem áður segir er Chilingarov svo í heiðursstjórn Hringborðs Norðurslóða – Arctic Circle, samtakanna sem Ólafur Ragnar Grímsson þáverandi forseti Íslands hefur leitt frá árinu 2013. Hringborðið hefur staðið fyrir árlegum ráðstefnum í Hörpu um málefni norðurslóða síðan þá, auk fleiri viðburða. Ólafur Ragnar er enn í dag stjórnarformaður Hringborðs Norðurslóða.
Samkvæmt upplýsingum sem Kjarninn fékk frá skrifstofu Hringborðsins var heiðursstjórnin mynduð strax árið 2013. Meðlimir hennar eru ekki sagðir gegna neinu sérstöku hlutverki, öðru en því að hafa stutt við starf Hringborðsins í upphafi og koma frá landfræðilega ólíkum stöðum.
Auk Chilingarov sitja í heiðursstjórninni þau Albert II prins af Mónakó, Lisa Murkowski öldungadeildarþingmaður Repúblikanaflokksins í Alaska og Sultan Ahmed Al Jaber, iðnaðarráðherra Sameinuðu arabísku furstadæmanna og forstjóri olíufélagsins í Abú Dabí.
Kjarninn leitaði svara við því hvort seta Chilingarov í heiðursstjórninni væri til einhverrar endurskoðunar í ljósi þess að hann væri sitjandi þingmaður flokksins sem flestu ræður í Rússlandi.
„Chilingarov varð heiðursmeðlimur vegna starfa sinna fyrir The Russian Geographical Society sem var stofnað árið 1845. Skipan heiðursstjórnar er ekki innan verksviðs skrifstofu Hringborðsins. Næstu viðburðir eru ekki fyrr en í haust og mun stjórn Hringborðsins ekki funda fyrr en seinna á árinu,“ segir í svari sem fékkst frá skrifstofu Hringborðsins. Chilingarov er síðast sagður hafa komið á ráðstefnu Hringborðsins fyrir sjö árum síðan.
Staðan hvað þátttöku Rússa varðar metin fyrir næstu viðburði
Alþjóðlegt samstarf í norðurslóðamálum er nú í nokkru uppnámi vegna innrásar Rússa í Úkraínu, en í upphafi þessa mánaðar sendu aðildarríki Norðurskautsráðsins frá sér yfirlýsingu þar sem innrásin var fordæmd. Tímabundið hlé hefur verið gert á öllum fundum ráðsins og undirstofnana þess.
Auk Íslands og Rússlands eiga Bandaríkin, Finnland, Kanada, Danmörk, Noregur og Svíþjóð aðild að ráðinu. Rússar fara með formennsku í því um þessar mundir og tóku við henni úr hendi Íslendinga í maí á síðasta ári á ráðherrafundi sem fram fór í Reykjavík.
Samstarf og samvinna um málefni norðurslóða hefur að mestu verið óháð deilumálum á milli ríkja á alþjóðlegum vettvangi á undanförnum. Rétt eins og Norðurskautsráðið og undirstofnanir þess hefur Hringborð Norðurslóða á undanförnum rúmum áratug orðið vettvangur umræðu og samvinnu óháð alþjóðlegum deilum að öðru leyti.
Ekki er ljóst hvort það breytist eitthvað vegna stríðsreksturs Rússa, en staðan hvað þátttöku rússneskra vísindamanna og diplómata í næstu viðburðum Hringborðsins varðar verður metin í aðdraganda þeirra, samkvæmt svörum frá skrifstofunni.