Hillary Clinton hefur ákveðið að bjóða sig fram til embættis forseta Bandaríkjanna, og mun formlega sækjast eftir því að verða forsetaframbjóðandi Demókrata í forsetakosningunum á næsta ári.
Þar með er eitt verst varðveitta leyndarmálið í Washington orðið opinbert, en yfirvofandi framboð Clinton hefur verið á hvers manns vitorði vestan hafs undanfarin tvö ár.
Í umfjöllun The New York Times er greint frá því að tilkynning frá Clinton hafi fyrst borist velgjörðarmönnum hennar í tölvupósti í dag. Kosningastjóri hennar, John Podesta, skrifaði tölvupóstinn, en í honum stóð: „Ég vildi tryggja að þið mynduð heyra þetta fyrst frá mér - það er opinbert, Hillary ætlar að bjóða sig fram til forseta.“
Eins og kunnugt er tapaði Clinton fyrir Barack Obama, sitjandi Bandaríkjaforseta, í baráttunni um útnefningu Demókrata-flokksins árið 2008. Hljóti hún útnefningu flokksins nú, verður hún fyrsta konan sem hlýtur slíka útnefningu frá öðrum af stóru stjórnmálaflokkunum í Bandaríkjunum. Flestir eru þó á því að hún eigi útnefninguna vísa, enda nýtur Clinton mikilla vinsælda vestan hafs, og þá sérstaklega á meðal kvenna, svo mikilla í raun að Obama sá sig tilneyddan til að gera hana að utanríkismálaráðherra í ríkisstjórn sinni.
Hillary Clinton, sem er 67 ára gömul, er að sjálfsögðu öllum hnútum kunn í Hvíta húsinu eftir að hafa búið þar í átta ár, eða á meðan eiginmaður hennar Bill Clinton gegndi embætti Bandaríkjaforseta á árunum 1993 til 2001.
Sjá spánýtt kosningamyndband Hillary Clinton, sem birt var á Youtube í dag.