Hillary Clinton er mótfallin því að borað sé eftir olíu og gasi á norðurslóðum. Þetta kemur fram á Twitter-síðu hennar í dag, í tilefni af því að stórfyrirtækið Shell hefur fengið leyfi til þess að bora eftir þessum auðlindum á norðurslóðum.
Clinton segir norðurslóðir einstakan fjársjóð. Miðað við upplýsingar sem fyrir hendi eru væri það ekki hættunar virði að bora eftir olíu.
The Arctic is a unique treasure. Given what we know, it's not worth the risk of drilling. -H
Auglýsing
— Hillary Clinton (@HillaryClinton) August 18, 2015
Það er flokksbróðir Clinton, núverandi forsetinn Barack Obama, og stjórn hans sem gefa leyfi fyrir olíuleitinni. Þetta er í fyrsta sinn frá árinu 2012 sem fyrirtækið fær leyfi til borana á svæði sem nefnist Chukchi-haf, norðan Alaska, en fyrirtækið fékk upphaflegu leyfin í valdatíð George W. Bush. Árið 2012 kom ýmislegt upp á hjá Shell á svæðinu, meðal annars missti fyrirtækið stjórn á olíuborpalli og bjarga þurfti átján manns af honum.
Talið er líklegt að olíu- og gasleit á norðurslóðum verði kosningamál fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum á næsta ári, þar sem Clinton vonast til að verða frambjóðandi Demókrataflokksins.
Bandaríkjamenn áætla að þeirra hluti mögulegrar olíu á Chukchi-svæðinu nemi 15,4 milljörðum olíutunna. Í Beaufort-hafi, öðru svæði þar sem leitað er að olíu og Shell á rétt, er búist við að 8,2 milljarðar olíutunna séu.