Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP, hefur verið kjörinn stjórnarformaður IGI, samtaka leikjaframleiðenda á Íslandi, á aðalfundi samtakanna. Samtökin eru starfsgreinahópur innan Samtaka iðnaðarins og allseru tíu fyrirtæki innan vébanda þeirra sem velta samtals níu milljörðum króna á ári. Ásamt Hilmari Veigar skipa nýja stjórn Ólafur Andri Ragnarsson stjórnarmaður Betware Burkni Óskarsson, framkvæmdastjóri Lumenox, Eldar Ástþórsson fjölmiðlafulltrúi CCP, Stefán Álfsson forstjóri Jivaro, Stefán Gunnarsson forstjóri Soldid Clouds og Steinunn Anna Gunnlaugsdóttir forstjóri Locatify.
Í tilkynningu vegna stjórnarkjörsins segir Hilmar Veigar að leikjaframleiðsluiðnaðurinn ekki vera dæmigerðan iðnað. Veltutölur séu háar en fyrirtækin fá og skortur á hæfu starfsfólki hamli vexti greinarinnar. ,,Ef þetta fólk er ekki til hér, þá verðum við að fá það erlendis frá. Af þessu verður útlendingalöggjöfin að taka mið og bjóða upp á hraðari afgreiðslu leyfanna. Við þurfum að stuðla að því að gera Ísland aðlaðandi fyrir þessa erlendu sérfræðinga og þar skipta skattaafslættir fyrstu starfsárin miklu máli eins og Danir hafa verið að gera með góðum árangri.“
Loka hagkerfi gerir fyrirtækjunum erfitt fyrir
Fráfarandi stjórnarformaður, Ólafur Andri Ragnarsson, mun sitja áfram í stjórn samtakanna. Hann segist þekkja vel þær áskoranir sem leikjaiðnaðurinn standi frammi fyrir. „Samtal okkar við önnur fyrirtæki, fjárfesta og stjórnvöld miða að því að útskýra tækifærin en ekki síður áskoranirnar. Öll fyrirtæki innan IGI eru í útflutningi og lokað hagkerfi gerir okkur erfitt fyrir. Við þurfum að skapa tækifæri fyrir fyrirtækin til að vaxa og halda þeim í landinu. Við erum einnig að keppa í alþjóðaumhverfi um starfsfólk sem á mjög auðvelt með að flytjast þangað sem spennandi störf bjóðast,“ segir Ólafur.
Í tilkynningunni segir enn fremur að margföldunaráhrif fyrirtækja á borð við CCP séu talsverð fyrir hagkerfið í heild sinni. "CCP stendur fyrir EVE Fanfest hátíðinni þann 19. – 21. mars næstkomandi. Von er á 1.500 erlendum gestum á hátíðina. Hátt í 100 athygliverðir dagskárliðir eru í boði og það má áætla að hundruðir þúsunda horfi á beina útsendingu frá hátíðinni."