„Mig langar núna í þessum annasama mánuði til að minna þingheim á þriðju vaktina, hverjir sinna henni, hverjir borga fyrir hana og hvernig það kemur niður á konum á vinnumarkaði á Íslandi.“
Þetta sagði Þórunn Sveinbjarnardóttir þingmaður Samfylkingarinnar undir liðnum störf þingsins á Alþingi í vikunni.
Byrjaði hún á því að vitna í færslu sem hún rakst á á samfélagsmiðlum á dögunum en í henni stóð: „Hálfmánarnir bakaðir og jólaundirbúningi lokið af minni hálfu.“ Færsluna skrifaði húsbóndi á höfuðborgarsvæðinu – „Vonandi í gríni,“ sagði Þórunn.
Álitið sjálfsagt að konur sinni þessum verkefnum frekar en karlar
„Stéttarfélagið VR vekur þessa dagana athygli okkar á þriðju vaktinni sem sinnt er launalaust og af miklum móð á langflestum heimilum allt árið um kring. Hún leggst ofan á hinar tvær; fyrstu vaktina, sem eru launuð störf utan heimilis, og varla þarf að segja frá því hér að atvinnuþátttaka kvenna á Íslandi er sú mesta í heimi, og aðra vaktina; heimilisverkin, barnauppeldið, samskipti við nána ættingja, verkefni sem fjölskyldan sinnir daglega.
Það liggur fyrir að konur á Íslandi sinna heimilisstörfum í níu klukkustundir á viku, karlar í sjö. Þar munar um það bil tveimur. Barnauppeldi sinna konur í u.þ.b. tíu klukkustundir á viku, aðspurðar, karlar í tæpar átta. Þarna undir er auðvitað munur sem segir okkur svo sem ekki neinar fréttir,“ sagði Þórunn.
Benti hún á að þriðja vaktin, sem líka er kölluð skipulags- og tilfinningavaktin, væri ólaunuð og snerist um yfirumsjón og verkstýringu á heimilisstörfunum.
„Verkefni hennar eru vanmetin og jafnvel álitið sjálfsagt að konur sinni því frekar en karlar. Hún er margfalt þyngri fyrir konur en karla, a.m.k. í gagnkynhneigðum samböndum.
Henni fylgir álag, hún tekur heilarými, sem hindrar atvinnuþátttöku, framgang í starfi og veldur streitu og álagi. Það er eftirtektarvert að aðspurðir segjast karlar sinna heimilisverkum í miklu meiri mæli en þeir gera í raun og konur segja að þær geri of mikið,“ sagði þingmaðurinn.