Tónlistarmaðurinn Gylfi Ægisson hefur með ummælum sínum í vikunni, um tillögu innan bæjarstjórnar Hafnarfjarðar að efla hinsegin fræðslu í skólum bæjarins, opinberað sig sem einn af fordómafyllstu og hættulegustu mönnum landsins.
Gylfi hefur ötullega kynnt fordómabálið og heiftina með bensínbrúsa í annarri og eldspýtustokk í hinni, meðvitundarlaus um hvers konar hatursboðskap hann boðar, og hvaða hræðilegu afleiðingar hann geti haft í för með sér. Ábyrgðar- og skilningsleysi tónlistarmannsins frá Siglufirði er algjört. Ótti hans, nærður á fordómum, blasir við öllum sem vilja sjá.
Í grunninn snýst tillagan í Hafnarfirði um að fræða börn um að það séu ekki allir eins og hvetja þau til að fagna fjölbreytni, umlykja þau með skilningi og fræðslu, meðal annars til að fyrirbyggja að samkynhneigð börn einangrist eða verði fyrir aðkasti þeirra sem ekki vita betur.
Hvernig getur Gylfi og söfnuður hans séð eitthvað ljótt og ógeðslegt við ofangreint? Hvaða einbeitta skilningsleysi er það?