Fjöldi þeirra allra fátækustu í heiminum fer lækkandi og verður í ár í fyrsta sinn undir tíu prósentum af mannkyninu, samkvæmt nýrri spá Alþjóðabankans. Árið 2012 var hlutfall þeirra sem lifa fyrir minna en 1,25 dollara á dag um 12,8 prósent af mannkyninu, eða um 902 milljónir manna. Því er spáð að hlutfallið lækki í 9,6 prósent í ár og telji alls um 702 milljónir manna.
„Þetta er besta fréttin í heiminum í dag,“ sagði Jim Yong Kim, forseti Alþjóðabankans, þegar spáin var birt í gær. „Spárnar sýna okkur að við erum fyrsta kynslóðin í sögu mannsins sem getur eytt mestu fátækt.“ Forsetinn varaði þó við hættumerkjum, meðal annars minnkandi hagvexti í heiminum, stríðsátökum, viðkvæmum fjármálamörkuðum og áhrifum loftlagsbreytinga.
Fækkun hinna fátækustu er í spá Alþjóðabankans helst rakin til mikils hagvaxtar í nývaxtarlöndum, einkum Indlandi, auk fjárfestinga í menntun, heilbrigðiskerfum og almannatryggingum.
Alþjóðabankinn ákvað árið 1990 að fátæktarmörk (e. extreme poverty line) væru undir einum dollara á dag. Mörkin voru hækkuð árið 2008 í 1,25 dollara. Fjöldi þeirra sem lifa undir fátæktarmörkum hefur fækkað um helming frá árinu 1990, samkvæmt gögnum Sameinuðu þjóðanna. Eitt markmiða Sameinuðu þjóðanna er að eyða mestu fátækt í heiminum fyrir árið 2030.