Neyðarstjórn, sem til stendur að skipa yfir ferðaþjónustu fatlaðra síðar í dag undir stjórn Stefáns Eiríkssonar sviðsstjóra velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, verður falið að ráðast í óháða úttekt á aðdraganda, innleiðingu og framkvæmd ferðaþjónustu fatlaðra hjá Strætó. Þá verður stjórninni sömuleiðis falið að gera sérstaka úttekt á máli Ólafar Þorbjargar Pétursdóttur, sem gleymdist í sex klukkustundir í bíl frá ferðaþjónustunni í gær.
Hitt húsið klikkaði líka
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg. Þar harmar borgin atvikið í gær og biður hlutaðeigandi afsökunar. „Ljóst er orðið að mistökin lágu ekki aðeins hjá bílstjóra ferðaþjónustunnar heldur varð einnig misbrestur á móttöku í frístund fatlaðs fólks í Hinu húsinu og eftirlitsskyldu þess.“
Ólöf Þorbjörg var í hópi fólks sem var á leið í frístund hjá Hinu húsinu klukkan eitt í gær. Það var hins vegar ekki fyrr en þremur klukkustundum síðar að uppgötvaðist að Ólöf hefði ekki skilað sér með hópnum á staðinn.
Klukkan átta í morgun var haldin fundur með fulltrúum Strætó, ÍTR, velferðarsviðs og Hafnarfjarðar þar sem farið var yfir atvikið.
Meginhlutverk neyðarstjórnarinnar, sem til stendur að skipa í dag með aðild fulltrúa Öryrkjabandalagsins, Sjálfsbjargar og Þroskahjálpar, verður að tryggja örugga og eðlilega þjónustu og framkvæmd ferðaþjónustu fatlaðra eins fljótt og kostur er. Stjórnin hefur fullt umboð til að gera þær breytingar sem hún telur nauðsynlegar til að bæta úr í þjónustu og framkvæmd.