Tónlistarmaðurinn Jónas Sigurðsson flutti hjartnæma ræðu við borgaralega fermingu í Reykjanesbæ um helgina, sem hefur vakið athygli á netinu og farið víða. Rúmlega þúsund manns hafa til að mynda „lækað“ ræðuna á vefsíðu Siðmenntar.
Í ræðu sinni brýndi Jónas fyrir fermingarbörnunum að vera þau sjálf og sagði: „Það hefur líklega sjaldan verið eins flókið að vera unglingur eins og núna. Heimurinn hefur breyst svo mikið. Þið hafið líklega mesta frelsi sem nokkur kynslóð ungs fólks hefur haft á Íslandi. Þið hafið aðgang að ótrúlegustu upplýsingum. Bæði að öllu því fallega þarna úti sem fólk er að gera og einnig því ljóta. Í þessu felast mikil tækifæri en um leið miklar áskoranir.“
„Slakið á, þið eruð frábær nákvæmlega svona“
Þá fjallaði tónlistarmaðurinn um þá miklu markaðssetningu sem beint er gegn ungu fólki og hvernig hún geti gefið ranga mynd af lífinu og haft áhrif á forgangsröðun. „En maður veit bara oft ekkert svo vel hvað manni langar að gera eða verða. Þess vegna segi ég aftur við ykkur: Slakið á. Þið eruð algjörlega frábær nákvæmlega svona. Bara hlusta á hjartað og vera maður sjálfur. Í góðum fíling.”
Þá hvatti Jónas fermingarbörnin til að hætta aldrei að spyrja spurninga, og veita „fullorðna“ fólkinu aðhald. „Málið er að ungt fólk eins og þið eruð algjörlega nauðsynleg til að koma hreyfinga á hlutina. Ungt fólk spyr nefnilega spurninga eins og „AF HVERJU?“ Fullorðna fólkið svarar þá gjarnan „ÞETTA ER BARA SVONA, HÆTTU AÐ SPYRJA.“ En ég segi .. aldrei hætta að spyrja. Við þurfum að spyrja eins og börn: af hverju eiga sumir ekki fyrir mat? Af hverju svelta sum börn? Af hverju eru sumir fullorðnir svona pirraðir og óþolinmóðir? Af hverju þurfa bankar að græða svona mikið? Þarf maður að vinna ef manni finnst það leiðinlegt? Af hverju þarf maður yfir höfuð að gera eitthvað leiðinlegt?“
Bannað að hugsa illa um sjálfan sig
Þá gaf tónlistarmaðurinn fermingarbörnunum heilræði út í lífið. „Það er: Bannað að hugsa illa um sjálfan sig, bannað að horfa í spegil og hugsa „ekki nógu gott,“ bannað að vera sig saman við aðra, helst að vera í góðum fíling og hlusta á það hvernig manni líður, aldrei láta neinn tala sig út í að gera eitthvað sem manni líður ekki vel með, og að lokum að koma fram við alla aðra eins og þú vilt að aðrir komi fram við þig. Sem sagt umgangast aðra eftir þessum sömu reglum og þið umgangist ykkur sjálf.“
„Þegar þú hinsvegar verður besta útgáfan af sjálfum þér og lifir í friði við guð og menn þá tapar enginn. Svo getur maður nefnilega sett sér markmið og notið þess að ná markmiðum sínum. En það er þá ekki til að sanna fyrir heiminum að maður sé einhvers virði. Heldur einfaldlega til að njóta lífsins og hafa gaman af þessum tíma sem okkur er úthlutað í þessum stórmerkilega og skrýtna heimi umkringd frábæru fólki eins og ykkur. Og það merkilega er að þannig breytum við heiminum líka,“ sagði Jónas Sigurðsson tónlistarmaður í ræðu sinni við borgaralega fermingu Siðmenntar í Reykjanesbæ á laugardaginn.