Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga hefur það sem leiðarljós í undirbúningsvinnu fyrir komandi kjarasamningsviðræður að fá launin „leiðrétt“ miðað við samninga annarra háskólamenntaðra opinberra starfsmanna. Þetta segir formaður félagsins, Ólafur G. Skúlason. Félagið er nú í fundaherferð um landið þar sem rætt er við félagsmenn um komandi kjarasamningsviðræðum. Að henni lokinni verða samningsmarkmið fyrir kjarasamninga mótuð formlega. „Grunnforsendan er að fá grunnlaun leiðrétt og hækka þau til samræmis við laun annarra háskólamenntaðra opinberra starfsmanna,“ sagði Ólafur í samtali við Kjarnann. Samkvæmt heimildum Kjarnans er horft til þess að hækkunin sem þurfi að koma til, svo þessu markmiði verði mætt, sé 20 til 25 prósent hækkun
Hann segir það ekki vera neitt leyndarmál að „allur vinnumarkaðurinn“ horfi til samnings ríkisins við lækna en með honum voru laun lækna hækkuð um meira en 20 prósent. Hjúkrunarfræðingar búi enn fremur við svipuð skilyrði og læknar hvað það varðar, að mikið hefur verið um það að fólk úr stéttinni flytji úr landi þar sem laun þar eru betri.
Ólafur segist ekki vilja nefna neinar tölur þegar kemur að kröfum um launahækkanir en hækkun grunnlaunanna, til jafns við viðmiðunarstéttir, sé algjör lágmarkskrafa. Ekki síst þar sem hjúkrunarfræðingar séu með fjögurra ára nám að jafnaði að baki, á meðan viðmiðunarstéttir háskólamenntaðra starfsmanna séu með þriggja ára grunnnám að baki.
Mikil spenna er nú á vinnumarkaði fyrir komandi kjarasamningsviðræður, en mikið ber á milli verkalýðshreyfingarinnar og Samtaka atvinnulífsins, þegar kemur að mati á því hversu mikið sé hægt að hækka laun á almennum vinnumarkaði.