Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (FÍH) segir að svo virðist sem að ríkisstjórnin hafi ákveðið að semja ekki við opinbera starfsmenn fyrr en samið hafi verið á almenna markaðinum. Félagið lýsir furðu sinni vegna ummæla Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi, en félagið sendi frá sér yfirlýsingu í vegna þessa.
„Miðað við yfirlýsingu háttvirts forsætisráðherra í sjónvarpsfréttum Stöðvar tvö í kvöld er ljóst að ekki verður samið við hjúkrunarfræðinga í bráð. Hjúkrunarfræðingar vonast til að samið verði áður en til verkfalls kemur en svo virðist sem ríkisstjórnin hafi ákveðið að ekki verði samið við opinbera starfsmenn fyrr en samið hefur verið við almenna markaðinn. Telur FÍH að þar sé vegið að samningsrétti opinberra starfsmanna,“ segir í yfirlýsingunni. Þá segir félagið að það sé „vægast sagt“ sérkennilegt að í kjarabaráttu geti annar samningsaðilinn búið yfir því afli að geta sett lög á hinn samningsaðilann, sem geri sjálfsagt og eðlilegt verkfallsvopn að engu. „FÍH telur að komi til lagasetningar á verkfall hjúkrunarfræðinga muni það einungis valda úlfúð og ekki til þess fallandi að leysa málin á farsælan hátt fyrir báða aðila. Það er von FÍH að á samningafundi á morgun komi raunhæft tilboð frá viðsemjendum okkar sem miðar að því að laun hjúkrunarfræðinga verði sambærileg og laun annarra háskólamenntaðra og taki ákveðið skref í að jafna launamun kynjanna hjá hinu opinbera.“