Systurnar Hlín Einarsdóttir og Malín Brand eru einstaklingarnir sem voru handteknir fyrir að reyna að kúga fé út úr Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra. Þetta fullyrðir Vísir.
Vísir hefur hvorki náð tali af Hlín né Malín, en segir að samkvæmt upplýsingum frá Morgunblaðinu sé Malín komin í leyfi frá störfum til 1. ágúst næstkomandi. Malín er bílablaðamaður á Morgunblaðinu. Hlín er fyrrverandi ritstjóri Bleikt.is, sem er hluti af Vefpressunni.
Vísir greindi frá því í morgun að í bréfi sem hafi borist Sigmundi og fjölskyldu hans var þess krafist að þau myndu reiða fram nokkrar milljónir króna eða upplýsingar sem áttu að vera viðkvæmar fyrir þau yrðu gerðar opinberar.
Málið var strax tilkynnt til lögreglu, og hún réðist í umfangsmiklar aðgerðir sem leiddu til handtöku tveggja einstaklinga.
Friðrik Smári Björgvinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, vildi ekki tjá sig um málið við Vísi en sagði von á fréttatilkynningu frá lögreglu fyrir hádegi í dag. Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður Sigmundar, sagðist ekki geta tjáð sig um málið heldur.