Hlín Einarsdóttir telur að stjórnendur Pressunnar séu að halda henni frá tölvupósthólfi sem hún var með hjá fyrirtækinu til að hindra að upplýsingar sem er að finna í tölvupóstum milli hennar og Björns Inga Hrafnssonar, aðaleiganda Pressunnar og útgefanda DV, rati ekki fyrir augu almennings. Hlín, sem hefur játað að hafa ætlað að kúga fé út úr Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra segir að mikilvægar upplýsingar séu í tölvupósthólfinu sem hún óttist að hún fái aldrei og telur að tölvupóstunum hafi mögulega verið eytt. Upplýsingarnar sýni að þær ásakanir sem hún hefur sett fram, meðal annars í bréfi sem var sent á eiginkonu forsætisráðherra, séu á rökum reistar.
Í samtali við Kjarnann segist Hlín ekki geta rætt aðdraganda fjárkúgunarinnar né nákvæmt innihald þess bréfs sem hún sendi á eiginkonu forsætisráðherra. „Það eru margþættar og flóknar ástæður fyrir því að þetta ferli hófst, en ég get ekki tjáð mig um það núna.“
Handteknar fyrir fjárkúgunartilraun
Hlín var, ásamt systur sinni Malín Brand, handtekin í lok maí fyrir að reyna að kúga fé út úr forsætisráðherra. Fjárkúgunin gekk út á meint óeðlileg tengsl Björns Inga við forsætisráðherra. Eftir að málið komst í hámæli lokuðu stjórnendur Pressunnar á netfang Hlínar, en hún var lengi ritstjóri Bleikt.is, vefmiðils í eigu fyrirtækisins.
Hlín hætti störfum hjá Bleikt.is í apríl 2014. Hún og Björn Ingi, sem voru sambýlisfólk í nokkur ár, slitu síðan samvistum í fyrrahaust. Þrátt fyrir þetta hafði hún alltaf getað notað tölvupósthólfið hlin@bleikt.is á þessu tímabili og segir að það hafi verið með vitund stjórnenda Pressunnar. „Ég sendi Birni Inga síðast póst úr þessu tölvupósthólfi í byrjun apríl 2015. Hann vissi vel að ég var að nota það,“ segir Hlín. Eftir að tölvupósthólfinu var lokað hafa stjórnendur Pressunnar og lögmaður fyrirtækisins hins vegar þrætt fyrir að það hafi yfir höfuð verið virkt eftir að Hlín hætti störfum.
Í kjölfar þess að fjárkúgunartilraunin gegn forsætisráðherra spurðist út var tölvupósthólfinu hins vegar lokað fyrirvaralaust. Hlín og lögmaður hennar hafa síðan þá reynt að fá stjórnendur Pressunnar til að opna aftur fyrir aðgang að því eða láta hana hafa afrit af tölvupóstunum, en án árangurs. „Það eru mjög mikilvægar upplýsingar þarna sem geta hjálpað mér í mínu málum. Ég óttast hins vegar að ég fái þetta aldrei. Og ég held að það sé engin tilviljun að þeir lokuðu pósthólfinu núna. Það eru upplýsingar í því sem sýna fram á að það sem ég segi, og meira til, er satt.“
Forsætisráðherra, útgefandi og MP banki
Upplýsingarnar sem áttu að koma Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra illa, og hótað var að gera opinberar í fjárkúgunarbréfi sem stílað var á eiginkonu hans, snérust um að Sigmundur Davíð eða aðilar tengdir honum hafi haft aðkomu að því að Pressan hafi fengið lánafyrirgreiðslu hjá MP banka. Björn Ingi, aðaleigandi Pressunnar, er með sterk tengsl við Framsóknarflokkinn. Hann starfaði á árum áður sem aðstoðarmaður þáverandi forsætisráðherra flokksins, Halldórs Ásgrímssonar, og sat fyrir hönd hans í borgarstjóri Reykjavíkur um skeið. Björn Ingi tilkynnti hins vegar að hann væri hættur afskiptum af stjórnmálum í byrjun árs 2008 og hefur síðan þá starfað við fjölmiðla.
Björn Ingi hefur ekki tjáð sig um málið frá því það kom upp fyrir utan stöðuuppfærslu sem hann setti inn á Facebook þriðjudaginn 2. júní. Þar sagði hann: „Ég er harmi sleginn yfir fregnum dagsins. Hugur minn er hjá þeim sem um sárt eiga að binda vegna þessa máls. Forsætisráðherra fjármagnaði ekki kaup Pressunnar á DV. Hann á ekki hlut í blaðinu. Að öðru leyti óska ég eftir því að tekið sé tillit til þess að hér er mannlegur harmleikur á ferðinni og að aðgát skuli höfð í nærveru sálar.“
Sigmundur Davíð sendi frá sér yfirlýsingu sama dag þar sem sagði m.a.: „ég hef engin fjárhagsleg tengsl við Björn Inga Hrafnsson, né hef ég komið að kaupum Vefpressunnar á DV á nokkurn hátt.“
Fyrir viku síðan setti forsætisráðherra svo stöðuuppfærslu á Facebook þar sem ítrekaði að hann hefði „ekki nokkra einustu aðkomu að eigendaskiptum á DV og veit ekkert um aðdraganda og gang þeirra mála.“
Fyrirgreiðsla á árinu 2013, áður en DV var keypt
Í umfjöllun Vísis um málið fyrir nokkrum dögum var rætt við Arnar Ægisson, framkvæmdastjóra Pressunnar, um rúmlega 60 milljón króna hækkun á skuldum félagsins á árinu 2013. Þar sagði hann að líklega væri um að ræða yfirfærslu á yfirdrætti sem var í eignarhaldsfélaginu Vefpressunni ehf., sem er í eigu Pressunnar. Hann staðfesti að yfirdrátturinn sé hjá MP banka.
Pressan keypti hins vegar ekki ráðandi hlut í DV fyrr en síðla árs 2014. Því er ljóst að fjárhagslega fyrirgreiðsla félagsins hjá MP banka átti sér stað áður en að þeim kaupum kom.
Arnar hafnaði hins vegar öllum tengslum Pressunnar við forsætisráðherra í frétt Vísis. Hann hafnaði einnig að lánafyrirgreiðsla MP banka hefði verið fengin að tilstillan Sigmundar Davíðs eða aðilum tengdum honum.