Systurnar Hlín Einarsdóttir og Malín Brand voru handteknar í Hafnarfirði, sunnan Vallahverfisins, á föstudag. Í fjárkúgunarbréfi sem þær eru sagðar hafa sent Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra á föstudag kom fram að skilja ætti eftir peningana, sem þær vildu fá í skiptum fyrir upplýsingar, á þeim stað.
Malín og Hlín hafa játað að hafa sent Sigmundi bréf þar sem þær reyndu að kúga fé út úr honum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Þar eru þær ekki nafngreindar, en sagt að þær hafi játað við yfirheyrslur og verið sleppt að þeim loknum. Lögreglan segir að málið teljist upplýst og verði sent ríkissaksóknara að lokinni rannsókn.
Malín er blaðamaður á Morgunblaðinu. Hún er komin í leyfi frá störfum fram til 1. ágúst. Hlín er fyrrverandi ritstjóri Bleikt.is, sem er hluti af Vefpressunni.
Vísir greindi frá því í morgun að í bréfi sem hafi borist Sigmundi og fjölskyldu hans á föstudag var þess krafist að þau myndu reiða fram nokkrar milljónir króna eða upplýsingar sem áttu að vera viðkvæmar fyrir þau yrðu gerðar opinberar.
Málið var strax tilkynnt til lögreglu, og hún réðist í umfangsmiklar aðgerðir sem leiddu til handtöku tveggja einstaklinga.
Friðrik Smári Björgvinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, vildi ekki tjá sig um málið við Vísi en sagði von á fréttatilkynningu frá lögreglu fyrir hádegi í dag. Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður Sigmundar, sagðist ekki geta tjáð sig um málið heldur.