Hlín Einarsdóttir, önnur systranna sem er grunuð um að reyna að kúga fé út úr forsætisráðherra, vill fá aðgang að tölvupósthólfi sínu hjá Vefpressunni til að nota í þeim málaferlum sem framundan eru vegna málsins og nauðgunarákæru gagnvart fyrrum samstarfsmanni hennar. Vefpressan er meðal annars í eigu Björns Inga Hrafnssonar, fyrrum sambýlismanns Hlínar. Þetta kemur fram í frétt á Stundinni.
Hlín var, ásamt systur sinni Malín Brand, handtekin nýverið fyrir að reyna að kúga fé út úr Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra. Fjárkúgunin gekk út á meint óeðlileg tengsl Björns Inga við forsætisráðherra. Eftir að málið komst í hámæli lokuðu stjórnendur Pressunnar, eigendur Vefpressunnar, á netfang Hlínar, en hún var lengi ritstjóri Bleikt.is, vefmiðils í eigu fyrirtækisins.
Hlín segir í samtali við Stundina að hún telji sig eiga fullan rétt á aðgengi að þessum gögnum sem séu að stórum hluta persónuleg. „Ég krefst þess að fá aðgang að tölvupósti mínum en stjórnendur Vefpressunnar eru að draga lappirnar. Það er mjög dularfullt að þeir skuli neita að afhenda mér gögnin,” segir Hlín við Stundina.
Hún vill að öðru leyti ekki tjá sig um þau tvö mál tengd henni sem hafa verið í hámæli undanfarnar vikur, meinta fjárkúgun gagnvart forsætisráðherra og meinta nauðgun sem hún hafi orðið fyrir af hendi fyrrum samstarfsfélaga síns. Hún segir þó að í pósthólfi hennar sé að finna póst til Björns Inga Hrafnssonar þar sem hún segir frá meintri nauðgun fljótlega eftir atburðinn. Sá sem ásakaður er um nauðgunina hefur kært Hlín og systur hennar til lögreglu fyrir fjárkúgun, en hann greiddi þeim 700 þúsund krónur gegn því að málið yrði ekki gert opinbert.
Upplýsingarnar sem áttu að koma Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra illa, og hótað var að gera opinberar í fjárkúgunarbréfi sem stílað var á eiginkonu hans, snérust um að Sigmundur Davíð eða aðilar tengdir honum hafi haft aðkomu að því að Pressan hafi fengið lánafyrirgreiðslu hjá MP banka.
Í umfjöllun Vísis um málið fyrir nokkrum dögum var rætt við Arnar Ægisson, framkvæmdastjóra Pressunnar, um rúmlega 60 milljón króna hækkun á skuldum félagsins á árinu 2013. Þar sagði hann að líklega væri um að ræða yfirfærslu á yfirdrætti sem var í eignarhaldsfélaginu Vefpressunni ehf. Hann staðfesti að yfirdrátturinn sé hjá MP banka.
Arnar hafnaði hins vegar öllum tengslum Pressunnar við forsætisráðherra. Hann hafnaði einnig að lánafyrirgreiðsla MP banka hefði verið fengin að tilstillan Sigmundar Davíðs eða aðilum tengdum honum.