Afgerandi meirihluti hlustenda Útvarps Sögu vill ekki að Tony Omos verði íslenskur ríkisborgari. Þetta kemur fram í frétt á vefsíðu útvarpsstöðvarinnar sem birtist í dag.
Um er að ræða niðurstöður óvísindalegrar skoðanakönnunar, sem útvarpsstöðin efndi til á heimasíðu sinni síðasta sólarhringinn, að því er fram kemur í áðurnefndri frétt á vefsíðu Útvarps Sögu.
Niðurstöðurnar eru afgerandi, eins og áður segir, en af þeim 836 sem tóku þátt í skoðanakönnuninni, svöruðu 766 henni neitandi eða 92 prósent, já sögðu 45 eða 4,5 prósent og 22 lýstu sig hlutlausa, eða 2,6 prósent.
Í byrjun næsta mánaðar verður kveðinn upp dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur um hvort Tony Omos fær hæli hér á landi. Hann dvelur nú á Ítalíu, en honum var vísað úr landi í lok síðasta árs. Með úrskurði sínum vorið 2013 synjaði Útlendingastofnun Tony Omos um hæli á Íslandi. Sá úrskurður var kærður til innanríkisráðuneytisins, sem svo staðfesti úrskurðinn síðasta haust. Niðurstaða innanríkisráðuneytisins var kærð, og er nú beðið dóms í því máli.