Virði hlutabréfa í Kauphöll Íslands lækkaði hjá flestum félögum í viðskiptum í dag. Úrvalsvísitalan lækkaði um 1,16 prósent en mæst lækkuðu bréf Vodafone, alls um 2,8 prósent í um 160 milljóna króna viðskiptum. Af 15 skráðum félögumn þá lækkaði gengi ellefu félaga. Þrjú stóðu í stað og N1 hækkaði eitt félaga, um 0,4 prósent.
Lækkanir á hlutabréfamarkaði í dag koma í kjölfar nokkurra hækkana síðustu tvo daga, sem meðal annars mátti rekja til aðgerðaráætlunar stjórnvalda til losunar fjármagnshafta. Fyrir opnun markaða í morgun tilkynnti Seðlabankinn um hækkun stýrivaxta um 0,5 prósentur. Er það fyrsta stýrivaxtahækkun bankans í um tvö og hálft ár. Afnámsáætlunin og stýrivaxtaákvörðun hafa því hreyft hressilega við verðbréfamörkuðum þessa vikuna.
Áhrif stýrivaxtaákvörðunar voru skýr á skuldabréfamarkaði, einkum skilaboð peningastefnunefndar þess efnis að enn frekari vaxtahækkanir séu í pípunum. Ávöxtunarkrafa óverðtryggðra ríkisskuldabréfa hækkaði um 16 til 30 punkta í dag. Greiningardeild Arion banka bendir á þetta í umfjöllun sinni um vaxtaákvörðunina í dag. „Þó að ákvörðun peningastefnunefndar hafi verið í samræmi við spá Greiningardeildar og annarra greiningaraðila var sú framvirka leiðsögn bankans sem finna mátti í lok yfirlýsingarinnar e.t.v. skýrari en von var á, en henni lýkur á þeim orðum að einsýnt sé „að hækka þurfi vexti umtalsvert í ágúst og frekar á komandi misserum eigi að tryggja stöðugt verðlag til lengri tíma litið“,“ segir í greiningu deildarinnar.