Hlutfall kvenna í félögum blaða- og fréttamanna á Íslandi hefur aldrei verið hærra, en þær eru nú 43 prósent af fullgildum meðlimum þeirra. Alls eru 250 konur fullgildir meðlimir í félögunum en 337 karlar. Þetta kemur fram í nýrri frétt á síðu Hagstofu Íslands.
Alls eru félög blaða- og fréttamanna tvö. Annars vegar er Blaðamannafélag Íslands, sem í eru 533 félagsmenn, og hins vegar Félag fréttamanna, sem fréttamenn á RÚV eiga einir aðild að, en þeir eru 54 talsins.
Fullgildum félagsmönnum hefur fækkað mikið á undanförnum árum. Hjá Blaðamannafélaginu hefur þeim fækkað um 105 frá árinu 2006 og hjá Félagi Fréttamanna um 28 frá árinu 2007. Alls nemur fækkunin hjá báðum félögum á síðustu átta árum 17,5 prósent.
Í frétt Hagstofunnar segir: „Lengi vel var frétta- og blaðamennska álitinn fyrst og fremst vettvangur karla. Átti það jafnt við um blaðamennsku á einkareknum miðlum sem og í opinberum fjölmiðlum. Hlutur kvenna innan stéttarinnar hefur þó aukist jafnt og þétt, þótt hægfara hafi verið. Árið 1995 voru konur tæp 28 af hundraði félagsmanna í Blaðamannafélagi Íslands og 35 af hundraði af félagsmönnum í Félagi fréttamanna. Með árunum hefur hlutur kvenna á meðal félagsmanna í Blaðamannafélaginu vaxið nær samfellt á sama tíma og þróunin hefur verið mun ójafnari í Félagi fréttamanna.“