Hluthafar í félögunum sem skráð eru í Kauphöll Íslands voru 21.104 í lok síðasta árs. Þeim fjölgaði um tæplega 1.500 á milli ára en þeir voru 19.636 í lok árs 2013. Hluthöfum fjölgaði eðlilega lang mest í þeim félögum sem skráð voru á markað á síðasta ári. Þannig fór fjöldi hluthafa í Sjóvá úr þremur í 3.011 á milli ára og hluthafar í HB Granda fór úr 572 í 2.036. Þetta kemur fram í nýjum markaðspunktum frá Greiningardeild Arion banka. Allar tölur eru unnar upp úr ársskýrslum skráðra félaga.
Hluthöfum fækkaði einnig töluvert í nokkrum félögum. Í upphafi árs 2014 voru hluthafar N1 5.164 en í lok þess árs voru þeir orðnir 2.403. Þeim fækkaði því um rúmlega helming. Um er að ræða langmestu fækkun hluthafa í skráðu félagi á síðasta ár. Hluthöfum í Tryggingamiðstöðinni fækkaði einnig umtalsvert, eða um 737.
Vert er að taka fram að margir eigendur eru margtaldir þegar horft er á heildarfjölda hluthafa í Kauphöllinni. Margir íslenskir lífeyrissjóðir eiga til að mynda hlut í flestum skráðum félögum á Íslandi. Hlutafjáreign almennings er líka að mestu leyti í gegnum eignir lífeyrissjóða. Samandregnar niðurstöður skattframtala sýna þó að um 50 þúsund fjölskyldur á Íslandi eigi hlutabréf og umfang þeirrar eignar hefur farið vaxandi frá árinu 2011. Þau hlutabréf þurfa þó ekki að vera í skráðum félögum. Um litil rótgróin fjölskyldufyrirtæki, nýsköpunarfyrirtæki í eigu vina eða jafnvel verðlaus hlutabréf í föllnum bönkum getur verið að ræða.