Hluthafafundur í N1 hefur ákveðið að lækka hlutafé félagsins og greiða hluthöfum þess út tæpan 3,9 milljarð króna. Fjárhæðin verður greidd út til hluthafa í lok dags þann 28. nóvember næstkomandi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá N1 sem send var inn til Kauphallar Íslands fyrr í dag.
N1 var skráð á markað í desember 2013, en félagið er eitt stærsta verslunar- og þjónustufyrirtæki landsins. N1 rekur 95 þjónustustöðvar og eldneytisafgreiðslur víðsvegar um landið. Lífeyrissjóðir landsins eru langstærstu eigendur félagsins. Samtals eiga Lífeyrissjóður verslunarmanna (14,2 prósent), Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins A-deild (8,0 prósent), Gildi lífeyrissjóður (7,57 prósent), Stafir lífeyrissjóðir (5,7 prósent) og Almenni lífeyrissjóðurinn um 40,5 prósent hlut í félaginu.
Aðrir lífeyrissjóðir sem eru á meðal 20 stærstu eigenda N1 eiga síðan 13,9 prósent til viðbótar. Því fara íslenskir lífeyrissjóðir með að minnsta kosti 54,4 prósent hlut í N1 og fá því rúman 2,1 milljarð króna af greiðslunni í sinn hlut.