Síðustu tvo daga hefur hluti Mývatns, næst byggðinni í Reykjahlíð, verið sérkennilegur á litinn. Vatnið er mjólkurhvítt á 150 til 200 metra belti í vatninu. Um einhvers konar efnamengun er að ræða, segir Dr. Árni Einarsson, líffræðingur og forstöðumaður Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn.
„Það er búið að taka sýni og skoða það í smásjá og þetta er ekki eitthvað lífrænt, ekkert lifandi, þannig að þetta er einhvers konar efnamengun sem er sirka 150 metra úti í vatnið frá bakkanum,“ segir hann. Þetta tengist líklega eitthvað byggðinni, að sögn Árna, og er beint fyrir framan Hótel Reykjahlíð. Árna var bent á málið í morgun og fór að skoða það og tók sýni. Hann segir beltið líklega um 150 metra, en það hafi ekki verið skoðað til hlítar hversu langt það teygir sig meðfram bökkum Mývatns.
„Það sem er mjög óvanalegt, ég hef aldrei séð svona lagað í Mývatni, það er þessi mjólkurlitur sem einhvern veginn er ekkert gegnsær svo það sést ekkert ofan í vatnið. Maður sér bara nokkra sentimetra, og gróðurinn sem sést á myndunum flýtur við yfirborðið.“
Mynd: Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn