Mikil spenna er vegna haftaáætlunar ríkisstjórnarinnar, sem verður kynnt í dag eða á morgun, og hvað hún muni fela í sér. Íslendingar hafa enda setið pikkfastir innan mjög þröngra hafta í á sjöunda ár og ljóst að kostnaðurinn af haftabúskapnum er og verður gríðarlegur. Viðskiptaráð hefur áætlað að höftin kosti okkur um 80 milljarða króna í gjaldeyristekjur á ári.
Það er hins vegar morgunljóst, og allir verða að átta sig á því, að höft verða ekki afnumin á Íslandi. Þau verða losuð. Eina tímabilið sem íslenska krónan hefur flotið frjáls eru árin fyrir hrun og þótt margir vilji ugglaust endurtaka þau þá eru færri til í að endurupplifa afleiðingarnar sem sú galna hagstjórn leiddi af sér. Á meðan að krónan er myntin okkar þá verða höft, og styrk stýring Seðlabankans á þeim, til staðar um ókomna tíð.
Þessi afstaða kom ágætlega fram í samtali Más Guðmundssonar seðlabankastjóra við Kjarnann 22. apríl síðastliðinn. Þar var Már spurður hvort hann hafi áhyggjur af því að gengi krónunnar muni veikjast við losun hafta. Svar Más var einfalt: „Ég hef ekki áhyggjur af því. Við munum einfaldlega tryggja að svo verði ekki.“